Kenía: spenna í loftinu fyrir kosningar

07.08.2017 - 04:26
Erlent · Afríka · Kenía
epa06126762 Supporters of the leader of Kenya's opposition coalition The National Super Alliance (NASA) and its presidential candidate Raila Odinga hold up a painting depicting Odinga taking an oath during NASA's election campaign rally in
 Mynd: EPA
Keníumenn ganga til kosninga á morgun og mjótt á munum milli tveggja fremstu brambjóðenda í könnunum. Tvísýnt er um hvernig niðurstöðum kosninganna verður tekið en fyrir tíu árum reið ofbeldisalda yfir landið í kjölfar kosninga og vill enginn að svo verði aftur, segir fréttaritari BBC, sem telur að kosningarnar snúist síður um hver beri sigur úr býtum og frekar um hvernig stuðningsmenn hins frambjóðandans taki ósigrinum.

Þykja líkur á að til óeirða komi ef niðurstöður kosninganna eru dregnar í efa. Rafrænt talningakerfi kjörstjórnar í Keníu gegnir lykilhlutverki í landi þar sem ásakanir um kosningasvik eru ekki óalgengar, segir í umfjöllun BBC. Ef kerfið bregðist eins og árið 2013 verði atkvæðin handtalin og allar líkur á að sá sem tapar kosningunum dragi niðurstöðurnar í efa. Árið 2013 gerðist einmitt þetta. Kærði frambjóðandinn Raila Odinga, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, niðurstöður kosninganna en tapaði málinu. Hann býður sig nú aftur fram gegn Uhuru Kenyatta, forseta landsins.

Það bætir gráu ofan á svart að tæknistjóri kjörstjórnar, Chris Msando, var myrtur fyrir nokkrum dögum síðan. Hann hafði komið að þróun talningakerfisins og verið ötull talsmaður þess. Fullvissaði hann Keníumenn um áreiðanleika kerfisins. Þegar lík hans fannst illa leikið úti í skógi ýtti það undir grunsemdir fólks um að einhverjir hyggðust eiga við niðurstöður kosninganna með ólögmætum hætti.

Sjá umfjöllun BBC hér.

epa06126759 Supporters of the leader of Kenya's opposition coalition The National Super Alliance (NASA) and its presidential candidate Raila Odinga carry a handmade 'presidential chair' for Odinga during NASA's election campaign rally
 Mynd: EPA
Af fjöldafundi stuðningsmanna stjórnarandstöðunnar.
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV