Kengúrur rugla sjálfkeyrandi Volvóa

01.07.2017 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd: Alamy  -  Guardian
Sjálfkeyrandi bílar sem sænski framleiðandinn Volvo er nú að þróa geta ekki greint kengúrur – hopp og skopp kengúranna veldur því að tölvukerfi bílsins fer í tóma flækju. Fyrirtækið hefur hannað sérstakan „greiningarbúnað fyrir stór dýr“, eins og tæknin er kölluð, og hún ræður vel við að láta bílana sveigja frá hjörtum, elgum og hreindýrum, en nýlegar tilraunir með bílinn í Ástralíu leiddu þetta nýja vandamál í ljós.

Kevin McCann, yfirmaður Volvo í Ástralíu, segir hins vegar að það sé við því að búast að svona nokkuð komi á daginn við prófanir á nýrri tækni. Hann fullyrðir að búið verði að finna lausn á þessu þegar áætlað er að Volvo setji sjálfkeyrandi bíla á markað árið 2020.

„Tilgangurinn með þessum prófunum er að safna gögnum og þjálfa hugbúnaðinn okkar í að þekkja það hvernig dýr hreyfa sig og hegða sér. Sjálfkeyrandi bílar eru í stöðugri þróun – bílar sem geta keyrt algjörlega án ökumanns eru ekki enn til og hluti af því að búa þá til er að þróa tækni sem getur greint kengúrur,“ segir McCann.

Kengúrur valda ótal umferðarslysum í Ástralíu. Um 90% af árekstrum bíla við dýr eru við kengúrur, þótt flestir árekstrarnir séu ekki alvarlegir – að minnsta kosti ekki fyrir ökumanninn.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV