Keflavík vann í dag 11 stiga sigur á Njarðvík í úrslitum Maltbikarsins en Keflavík hefur nú unnið 15. bikarmeistaratitla. Eftir jafnan leik þá stungu Keflvíkingar endanlega af undir lokin og lokatölur því 74-63 Keflavík í vil.
Byrjunarlið Keflavíkur í dag var skipað þeim Salbjörgu Rögnu Sævarsdóttur, Thelmu Dís Ágústsdóttur, Emblu Kristínardóttur, Brittanny Dinkins og Ernu Hákonardóttur. Byrjunarlið Njarðvíkur var skipað þeim Maríu Jónsdóttur, Shalondu R. Winton, Hrund Skúladóttur, Ernu Freydísi Traustadóttur og Björk Gunnarsdóttur.
Embla fór fyrir Keflavík í 1. leikhluta
Embla Kristínardóttir skoraði fyrstu körfu leiksins og kom Keflavík þar með yfir. Setti hún þar með tóninn fyrir leik sinn í 1. leikhluta hún var allt í öllu í sóknarleik Keflavíkur í upphafi leiks.
Keflavík komst 6-1 yfir áður en Njarðvík tókst að jafna leikinn í 6-6. Þá gáfu Keflavíkurkonur aftur í og komust 15-9 yfir þegar lítið var eftir af 1. leikhluta, á þeim tíma var Embla komin með 9 stig eða jafn mikið og allt Njarðvíkur liðið til samans.
Njarðvík náði þó að minnka muninn niður í 3 stig áður en 1. leikhluta lauk, staðan 15-12 að honum loknum.
Njarðvík kom til baka og allt í járnum í hálfleik
Keflavík byrjaði 2. leikhluta af krafti og breyttu stöðunni í 19-12 áður en Shalonda R. Winton kom Njarðvík á blað með góðri þriggja stiga körfu. Shalonda átti eftir að sýna sínar bestu hliðar í 2. leikhluta en þegar Keflavík var komið 8 stigum yfir, 28-20, þá tók hún leikinn hreinlega yfir. Hún var allt í öllu á báðum endum vallarins og hjálpaði Njarðvík að jafna leikinn í stöðunni 33-33 og þegar hálfleiksflautan gall þá var staðan jöfn, 35-35.