Kaupir ekki hús á Arnarnesi en skoðar hjólhýsi

22.07.2017 - 12:20
„Það hafa fleiri áhuga á að sjá mann og ég hef meira að segja fundið mig í þeim aðstæðum að þurfa að hafna hlutverkum,“ segir leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson en ferill hans hefur tekið stökk undanfarin misseri og leikur hann nú í hverri stórmyndinni á fætur annarri.

Jóhannes Haukur Jóhannesson var föstudagsgestur Síðdegisútvarpsins á Rás 2.

Ekki boðið í frumsýningarpartýið

Jóhannes fer með hlutverk í spennumyndinni Atomic Blonde, en Óskarsverðlaunaleikkonan Charlize Theron framleiðir myndina auk þess að fara með aðalhlutverk. Jóhannes er ekki eini Íslendingurinn sem kemur að þeirri mynd, en Elísabet Rónaldsdóttir sá um að klippa myndina, sem frumsýnd verður um næstu helgi og heljarinnar frumsýningarpartý verður haldið á mánudaginn. „Já, mér er ekki boðið í það,“ segir Jóhannes. „Ég er viss um að Charlize og James McAvoy, það er verið að fljúga þeim í þetta partý, ég fæ ekki einu sinni að vita af því. Ég fæ kannski að mæta í Smárabíó á frumsýninguna á Íslandi.“ Að sögn Jóhannesar er hlutverk hans í Atomic Blonde ekki ýkja stórt, nokkrar senur, en þó er mikið talað um persónu hans í myndinni.

Þá er kvikmyndin Alpha einnig á leiðinni en hún verður frumsýnd snemma á næsta ári. „Þar leik ég annað stærsta hlutverkið. Þar fæ ég boð í frumsýningu,“ segir Jóhannes sigri hrósand en hann tekur konuna með sér út og íhugar jafnvel að taka börnin þeirra þrjú einnig með. „Við gætum séð eftir því, en við sjáum til.“ Fyrsta stikla myndarinnar kom út í vikunni og leist Jóhannesi vel á það sem hann sá þar. „Maður áttar sig ekki alltaf á hvað er að gerast í kringum mann þegar maður er í tökum, hvernig þetta mun líta út. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum.“

Svartur á leik opnaði margar dyr

Jóhannes hefur undanfarin ár orðið meira áberandi og fengið hlutverk í mörgum kvikmyndum og þáttaröðum, til að mynda Game of Thrones. Hann segir að hjólin hafi farið að snúast eftir að hann lék í Svartur á leik árið 2011. „Sú mynd fór ansi víða á kvikmyndahátíðir og svoleiðis,“ segir Jóhannes, en umboðsmaður í Bandaríkjunum hafði samband við hann eftir að hafa séð myndina. „Hann langaði að hafa einhvern svona skandinavískan bad-guy, og spyr hvort hann megi vera umboðsmaðurinn minn. Ég hélt að þetta væri eitthvað grín, yfirleitt þurfa leikarar að sækja sér umboðsmenn.“

Mynd með færslu
 Mynd: Svartur á leik
Jóhannes Haukur í Svartur á leik

Umboðsmaður hans útvegaði honum reglulega hálfgerðar áheyrnarprufur í gegnum internetið, þ.e.a.s. hann fékk sendar ákveðnar senur sem hann tók sjálfur upp á myndband og sendi síðan út. „Þetta gerði ég í þrjú ár og ekkert gerðist, bara nei, nei, nei. En svo allt í einu er mér boðið hlutverk í sjónvarpsseríu fyrir NBC,“ segir Jóhannes, en hann var beðinn um að mæta í tökur á tíu þáttum í Marokkó tveimur vikum síðar.

Logi Bergmann stal útvarpsþættinum

„Þá þurfti ég að hnýta alla hnúta, segja upp í Þjóðleikhúsinu, hætta á Bylgjunni með morgunþátt sem ég var með þar,“ segir Jóhannes. „Ég meira að segja hætti ekki strax, ég fékk bara Loga Bergmann til að leysa mig af. Hann er ennþá í afleysingum. Það var hringt í mig um daginn og ég spurður hvort ég væri til í að koma í þáttinn hans Loga. Þetta er bara orðinn þátturinn hans Loga,“ segir Jóhannes, hálfmóðgaður.

En eftir að Jóhannes lék í þáttunum fyrir NBC, sem heita A.D. The Bible Continues, fór boltinn að rúlla í Ameríku. „Þetta var alltaf svona ein prufa á mánuði en eftir að ég var kominn í seríu á NBC þá voru þetta svona þrjár á mánuði. Núna eru þetta orðnar svona þrjár, fjórar í viku. Það hafa fleiri áhuga á að sjá mann, af því ég var í Game of Thrones og er í Atomic Blonde. Ég hef meira að segja fundið mig í þeim aðstæðum að þurfa að hafna hlutverkum.“

John C. Reilly alþýðlegur en Joaquin Phoenix alvarlegri

Jóhannes lék nýlega í kúrekamyndinni The Sisters Brothers, sem væntanleg er á næsta ári. Þar lék hann á móti stórstjörnum á borð við John C. Reilly og Joaquin Phoenix. „Ég var að leika í senu með þeim, þannig að við þurftum að vera á æfingum saman. John er rosalega alþýðlegur og spjallaði við mann. Joaquin sagði hæ og kynnti sig, en ekkert meira spjall. Svo var hann bara í vinnunni,“ segir Jóhannes og bætir við að Joaquin Phoenix sé mikill fagmaður og taki hlutverk sín mjög alvarlega.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Joaquin Phoenix og John C. Reilly

Ein milljón fyrir viku í tökum

En hversu mikið er þessi nýji frami Jóhannesar að skila í vasann? „Ég er alveg að fá vel borgað. Ekki þannig að ég sé að fara kaupa einbýlishús á Arnarnesi, en ég er alveg að skoða hjólhýsi,“ segir Jóhannes og viðurkennir að hann fái betur borgað en í Þjóðleikhúsinu. „Ég fékk eina milljón fyrir The Sisters Brothers. Það var vika í tökum.“ Hann segir að það sé hægt að fá nokkrar milljónir fyrir leik í kvikmyndum en á móti kemur sé hann stundum verkefnalaus inn á milli. „Þetta jafnast út og á árs grundvelli er þetta bara fínt.“

Meðal annarra verkefna hjá Jóhannesi má nefna íslensku þáttaröðina Stellu Blómkvist, sem væntanleg er Sjónvarp Símans í desember, og ný mynd leikstjórans Richard Linklater með Cate Blanchett í aðahlutverki sem gerist að hluta til á Suðurskautslandinu. Þá er Jóhannes einnig að hefja vinnu við nýja þáttaröð hjá Netflix sem hann má lítið tala um. „Ég verð í öllum átta þáttunum, þannig ég verð í því af og á frá næsta mánudegi og fram í febrúar.“