Fólk sem keypti bíla þar sem búið var að eiga við kílómetramælinn hefur miklar áhyggjur af endursöluverðmæti þeirra og telja sig illa svikin. Bílarnir voru keyptir af bíleigunni Procar sem var í dag vísað úr Samtökum ferðaþjónustunnar. Sérfræðingur í neytendarétti segir að það sé ekki útilokað að fara fram á riftun kaupa í einhverjum tilfellum.

Í dag ræddi fréttastofa við nokkur þeirra sem keyptu bíla sem búið var að eiga við og hafa þau miklar áhyggjur af stöðu mála. Einn eigandinn ætlaði að setja bílinn á sölu í þessari viku og hefur miklar áhyggjur af áhrifum þessa á söluverðmæti bílsins. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags bifreiðaeigenda segir kaupendur þessara bíla standa frammi fyrir gríðarlegu tjóni. „Núna liggur fyrir vitneskja um það að þeir eru búnir að gangast við hafa verið að eiga við alla þessa bíla og hugsanlega eru það fleiri, við vitum það ekki.  Og auðvitað verður þá ákveðinn stimpill á bílum sem hafa verið í eigu þessa fyrirtækis.“

Töluverður fjöldi hefur haft samband

Fjallað var um málið í Kveik í gær og þar kom fram að starfsmenn Procar hafi átt við mæla í að minnsta kosti 100 bílum. Í einu tilviki var búið að lækka mælinn um rúma 43.000 kílómetra, samkvæmt því sem gögn Kveiks sýna. Eftir því sem fréttastofa kemst næst má gera ráð fyrir því að verð þess bíls hefði átt að vera að minnsta kosti 200.000 krónum lægra en það var. Í yfirlýsingu sem var send út fyrir hönd Procar var þeim sem keyptu bíl á árunum 2013 til 2016 bent á að hafa samband við Draupni lögmannsþjónustu sem muni hafa milligöngu um greiðslu bóta. Samkvæmt upplýsingum frá Draupni hefur töluverður fjöldi haft samband vegna málsins. 

Procar var vísað úr Samtökum ferðaþjónustunnar í dag. Í tilkynningu frá samtökunum segir að það hafi verið einróma ákvörðun stjórnarinnar. Runólfur segir brot Procar skaða ímynd bílaleigufyrirtækja. „Auðvitað skaðar þetta til dæmis bílaleigufyrirtæki almennt. Og þetta skaðar líka bílgreinina í heild sinni. Þannig að þetta er grafalvarlegt mál,“ segir Runólfur. 

Telur bætur ekki duga

Hann telur ekki nóg að bjóða þeim sem keyptu bíla sem búið var að eiga við bætur. „Í rauninni er eina rétta leiðin að kaupin gangi til baka. Þannig að neytandinn skilar bílnum, í þessu tilfelli bílaleigunnar, sem að endurgreiðir kaupverð bifreiðarinnar.“

Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor við lögfræðideild Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur í neytendarétti, segir ljóst að þeir bílar sem átt var við sé gölluð vara samkvæmt lögum. Hún segir ekki útilokað að hægt sé að fara fram á riftun í einhverjum tilfellum. „Ég held að nærtækasta leiðin sé að fara fram á skaðabætur vegna galla,“ segir Halldóra. Lengra viðtal við Halldóru um stöðu neytenda í þessu máli má sjá í myndskeiðinu með fréttinni. 

Ekki náðist í forsvarsmenn Procar né lögmann þeirra við vinnslu fréttarinnar.