Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði að auðvitað væri margt frábært á Íslandi og margt hefði lagst á gæfusveif með landinu. Engu að síður væri fólk ekki sátt og það mætti meðal annars rekja til óheiðarleika enda væri enginn ánægður þegar hann sæi ráðamenn fara með blekkingar og ósannindi.
Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Katrínar á eldhúsdegi Alþingis í kvöld. Katrín rifjaði upp það sem Íslendingar ættu sameiginlegt - það væri til að mynda skelfileg bernskuminning um rauðhærðu afturgönguna, Söngvakeppnin og Áramótaskaupið og að flestir þættust kunna textann þegar Stál og hnífur væri tekin í partíum.
Katrín gerði alvarlegar athugasemdir við málflutning Ásmundar Friðrikssonar á þingi - þótt hún nefndi hann ekki á nafn sagði hún skoðun þeirra sem teldu innflytjendur ógna velferðarkerfinu stangast á við staðreyndir og ekki byggjast á neinum raunverulegum gögnum.
Hún sagði núverandi ríkisstjórn, sem mynduð hefði verið í frægu sumarbústaðateiti fyrir þremur árum, vilja eigna sér allan heiðurinn af þeirri miklu bjartsýni sem nú ríkti hjá ráðherrum hennar. Allt hafi þá byrjað að vera frábært og allt gengið upp en það hefði ekki verið þannig.
Efnahagsbatanum hefði ekki verið skipt jafnt, aldraðir og öryrkjar gætu ekki náð endum saman og tækifærin til að hefja raunverulega sókn hefðu ekki verið nýtt. Matarskatturinn hefði farið upp en vaxta-og barnabætur farið niður. Ríkisstjórnin hefði vanrækt að byggja upp samfélagsstoðir Íslands.
Katrín sagði að þetta væri ríkisstjórnin sem ætlaði sér að setja alls konar heimsmet en það sem eftir sæti væri að hún ætti allavega eitt heimsmet „eða að minnsta kosti Evrópumet og það er fjöldi ráðherra í Panamaskjölum,“ sem hefði verið réttlætt með því að einhvers staðar yrði ríka fólkið að geyma peninganna sína.
Hún sagði að nú yrði að kjósa til valda fólk sem vildi skattleggja fjármagnið en ekki fólkið sem síðan yrði nýtt til að jafna kjörin, bæta kjör aldraðra og öryrkja og létta gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Hún sagði að opinberum fjármunum væri eytt með sérkennilegum hætti - til dæmis til að lækka skuldir tekjuhæstu hópa samfélagsins „á meðan fátækasta fólkið situr eftir og innviðirnir eru í órækt.“