Formenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Pírata koma í kvöld saman til að ræða stöðu stjórnarmyndunarviðræðna. Þar fara þau yfir stöðuna eins og hún er eftir fundi flokkanna í gær og fyrradag auk þingflokksfunda í dag. Katrín á ekki von á að úrslit stjórnarmyndunarviðræðnanna ráðist á fundinum í kvöld en segir að þar fari viðsemjendur eins langt og hægt er. Hún segir að það verði að vera orðið ljóst á morgun hvort flokkarnir mynda saman stjórn eða ekki.

Katrín segir að fundurinn í kvöld byggi á þeim fundum sem þegar hafa átt sér stað. „Þar vorum við annars vegar að fara yfir þau mál sem við erum mjög sammála um, sem eru þau uppbyggingarverkefni sem við teljum mikilvægast að ráðast í, við vorum að fara yfir stöðuna á vinnumarkaði og þau verkefni og viðfangsefni sem blasa augljóslega við þeirri ríkisstjórn sem tekur við. Síðan auðvitað líka yfir þau mál sem flokkarnir eru ekki alveg sammála um þannig að núna munum við nýta kvöldið í að fara yfir þessa heildarmynd áfram.“

Katrín segir engin sérstök mál sem geri stjórnarmyndun erfiða. „Ég myndi nú ekki segja það en það liggur auðvitað fyrir að við erum ekki öll á sömu blaðsíðu og það þarf að finna lausnir á málum. Það eru auðvitað verkefnið í svona samtali að finna lausnir á þeim málum sem menn eru ekki alveg sammála um.“

„Ég á nú ekki von á því að þetta ráðist í kvöld,“ aðspurð hvort fundur formannanna í kvöld kunni að vera úrslitafundur í þessari stjórnarmyndunartilraun. „Ég á frekar von á því að við reynum að fara eins langt og við getum og förum síðan aftur yfir málið í fyrramálið. Það liggur fyrir af minni hálfu að ég tel mjög mikilvægt að á morgun liggi það fyrir hvort við erum að fara að skrifa hérna stjórnarsáttmála þessara fjögurra flokka og hvort við treystum okkur til að sameinast nægjanlega vel um að mynda hér ríkisstjórn þótt hún sé með naumum meirihluta.“

Katrín segist ekki telja þolinmæði fyrir öðru í samfélaginu en að stjórnarmyndun sé unnin hratt  og örugglega.