Ein af niðurstöðum starfshóps, sem falið var að skoða umfang aflandsviðskipta Íslendinga, er að tvísköttunarsamningar hafi beinlínis orðið verkfæri til að komast undan sköttum hér á landi. Fjallað verður um efni skýrslunnar í Kastljósi í kvöld og rætt við formann starfshópsins. Þar verður einnig fjallað um sérkennilega umgengni Landsbankans við samningagerð aflandsfélaga og langvarandi eftirlitsleysi með peningaþvætti hér á landi.
„Það er fólk í hópnum sem þekkir mjög vel þarna til og úr ráðuneytinu og það eru margir gagnrýnir á þessa samninga og hvernig þeir voru. Jafnvel finnst mönnum að Íslendingar hafi verið plataðir á vissan hátt við gerð þessara samninga,“ segir Sigurður Ingólfsson, formaður starfshóps sem falið var að skoða umfang aflandseigna Íslendinga.
Sjá má brot úr Kastljósi kvöldsins í spilaranum hér að ofan.
Í skýrslu starfshópsins segir að tvísköttunarsamningar Íslands - við Holland annars vegar og Lúxemborg hins vegar, hafi verið þessu marki brenndir. Samningarnir sem gerðir voru 1999 og 2002 og áttu meðal annars að liðka fyrir erlendri fjárfestingu hér á landi, virðast þó meira hafa verið nýttir af Íslendingum til þess að komast hjá því að greiða skatta hérlendis, með stofnun skúffufélaga í þessum löndum.
Tvísköttunarsamningar eiga að koma í veg fyrir að fyrirtæki, sem er með starfsemi í einu landi en eignarhaldið í öðru ríki, þurfi að sæta því að ávinningur af rekstrinum sé skattlagður í báðum ríkjum. En þá er að sjálfsögðu gengið út frá því að skattur sé greiddur að minnsta kosti í öðru landinu, ekki í hvorugu eins og raunin varð hér.
Samkvæmt niðurstöðum starfshópsins má áætla að í lok ársins 2015 hafi uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 legið á bilinu 350-810 ma.kr. Þá telur starfshópurinn að mögulegt tekjutap hins opinbera vegna vantalinna eigna geti numið allt frá 2,8-6,5 ma.kr. árlega miðað við gildandi tekjuskattslög.
Nánar verður fjallað um niðurstöður hópsins og rætt við Sigurð Ingólfsson í fréttum og Kastljósi í kvöld.