Þolinmæði Landspítalans gagnvart sjúkrahóteli Sinnum ehf í Ármúla er á þrotum. Ítrekuðum athugasemdum spítalans og eftirlitsaðila hefur ekki verið sinnt af Sjúkratryggingum sem telja spítalann beita tilefnislausum athugasemdum gegn rekstraraðila sjúkrahótelsins, Sinnum ehf.
Fjallað verður um umdeildan einkarekstur sjúkrahótels Landspítalans í Kastljósi í kvöld. Kastljós óskaði nýverið eftir gögnum sem varða rekstur Sjúkrahótelsins og samninga ríkisins um hann frá Sjúkratryggingum Íslands og Landspítalanum. Þar koma fram upplýsingar um nær stanslausar deilur milli þessara stofnana um rekstur hótelsins og ítrekaðar athugasemdir eftirlitsaðila við starfsemina.
Fyrirtækið Sinnum ehf hefur rekið sjúkrahótel á hóteli í Ármúla frá því 2011. Rekstur þess var áður í höndum Landspítalans á hóteli Fosshótela við Rauðarárstíg en þar áður í höndum Rauða krossins. Sjúkratryggingar Íslands buðu út rekstur sjúkrahótelsins í samvinnu við Landspítalann, sem sinnir sem fyrr hjúkrunarþjónustu á hótelinu. Sinnum ehf átti lægsta boð sem hljóðaði upp á um 90 milljónir króna á ári. Landspítalinn gerði strax ári síðar fjölmargar athugasemdir við aðstöðuna, aðbúnað og efndir Sinnum ehf á samningi við ríkið.
„Tilefnislausar athugasemdir“
Sjúkratryggingar Íslands líta málið allt öðrum augum. Samningarnir við Sinnum hafi þvert á móti reynst vel en Landspítalinn hafi „beitt sér fyrir því að koma með tilefnislausar athugasemdir í tengslum við samninginn við Sinnum," eins og segir í minnisblaði forstjóra Sjúkratrygginga frá því í byrjun árs.
Í viðtali við Kastljós í kvöld sakar forstjóri Sjúkratrygginga Íslands svo Landspítalann um að stýra vinnu eftirlitsaðila, sem einnig hefur gert athugasemdir við rekstur Sinnum ehf. En heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ítrekað gert athugasemdir við aðbúnað og leyfismál á sjúkrahótelinu undanfarin ár. Það hafa starfsmenn, sjúklingar og aðstandendur einnig gert en rætt verður við þá í Kastljósi í kvöld.
Í samskiptum Sjúkratrygginga og sama heilbrigðiseftirlits er ljóst að Sjúkratryggingar beittu sér mjög eindregið fyrir Sinnum ehf í kjölfar athugasemda eftirlitsins og krafna um úrbætur. Heilbrigðiseftirlitið sá jafnvel ástæðu til að gera athugasemdir við aðkomu Sjúkratrygginga að þeim samskiptum og beiðnum um fyrirgreiðslu eftrlitsins og bendir á að „eðlilegra væri“ að Sinnum ehf ræki sjálft sín samskipti og beiðnir við heilbrigðiseftirlitið.
Hvað er sjúkrahótel?
Upphaf deilunnar má rekja til mismunandi sýnar stofnananna tveggja á hvaða starfsemi eigi að fara fram á sjúkrahóteli. Mikill meirihluti þeirra sem koma á sjúkrahótelið fara þangað frá Landspítalanum en hótelið hefur verið talið mikilvægur hlekkur í því að stytta dvöl sjúklinga á sjúkrahúsum, eins og fram kom í forsendum útboðs árið 2010. Sjúkratryggingar segja þjónustuna fyrst og fremst hótel, en að hjúkrunarþjónusta þar eigi að vera samskonar og í heimahjúkrun sveitarfélaga.
Fulltrúar Landspítalans segja hins vegar að sjúkrahótelið eigi að vera og hafi verið staður fyrir sjúklinga sem séu ýmist að jafna sig eftir aðgerðir eða meðferðir á spítalanum, en geti ekki verið heima hjá sér, eða búsettir úti á landi og séu í göngudeildarmeðferðum. Stærstur hluti þeirra sem dvelja á sjúkrahótelinu eru krabbameinssjúklingar og sjúklingar með hjarta- eða æðasjúkdóma, til dæmis þeir sem þurfa að sækja blóðskilun á spítalanum.
LSH segir nýjan samning verri
„Það er mér og starfsfólki Landspítalans mikið áhyggjuefni hvernig SÍ (Sjúkratryggingar Íslands) hefur komið fram og hegðað sér í þessu máli," segir í bréfi forstjóra spítalans til ráðherra heilbrigðismála fyrir sléttu ári. Þá hafði spítalinn reynt án árangurs að ná fram úrbótum á aðstöðunni á sjúkrahótelinu. Forstjóri Sjúkratrygginga er ósammála þessu og telur Landspítalann láta deilur stofnananna bitna á þriðja aðila að ósekju. En þar á hann við rekstraraðilann Sinnum ehf.
Nýtt útboð fór svo fram síðastliðið haust, í miklum ágreiningi Sjúkratrygginga og Landspítalans. Með útboðinu var aukið forræði yfir ákvörðunum um nýtingu sjúklinga á hótelinu fært til Sinnum ehf, frá Landspítalanum. Reynslan af þeim samningi hefur að sögn forstjóra Landspítalans gert það að verkum að þolinmæði spítalans er nú á þrotum.
„Landspítali hefur sýnt einstakt langlundargeð en orð skulu standa. Að öðrum kosti er Landspítala nauðugur einn kostur, að krefjast þess að Sjúkratryggingar og Sinnum ehf segi sig frá þessu samstarfi og eftirláti fagaðilum að sinna þeim viðkvæma rekstri sem rekstur sjúkrahótels er. Telur Landspítali þá fullreynt að markmiðum um faglegan og rekstrarlegan ávinning af þessu samstarfi verði ekki náð," segir í einu bréfa Páls Matthíassonar forstjóra LSH til ráðherra í tengslum við málið.
Nánar verður fjallað um það í Kastljósi í kvöld, að loknum fréttum.