Karlmenn hafa beðið Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra afsökunar á atvikum úr fortíðinni, sem tengjast Metoo byltingunni. Katrín segir byltinguna hafa haft áhrif á okkur öll.
Embla Kristínardóttir, körfuknattleikskona úr Keflavík, steig fram í fréttum í gær og sagði að íþróttafélag mannsins sem nauðgaði henni, hafi tekið afstöðu með honum. Mál Emblu bættist við 62 frásagnir íþróttakvenna af kynferðislegri áreitni og ofbeldi, sem þær sendu frá sér á dögunum. Áður hafa konur úr fjölmörgum öðrum geirum samfélagsins stigið fram með sambærilegar sögur, undir merkjum Metoo.
„Þetta hefur haft mjög mikil áhrif á okkur öll og samfélagið allt,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. „Og maður finnur að þetta er á hvers manns vörum í samfélaginu, þær frásagnir sem við höfum heyrt í gegnum Metoo byltinguna úr ólíkum geirum.“
Ætlar einhvern tímann að segja frá
Katrín segir að víða í samfélaginu sé verið að taka á málum af þessu tagi. Til dæmis sé búið að samþykkja að kanna hvernig þessum málum sé háttað í ráðuneytunum. Til standi að gera slíkt hið sama hjá stofnunum hins opinbera. Þá ætlar Katrín að skipa stýrihóp um þessi mál.
„Þessum stýrihóp er í raun ætlað að tryggja heildstæða nálgun þannig að við séum að horfa til brotaþola og hvernig við getum stutt við brotaþola í gegnum heilbrigðiskerfið og félagskerfið líka, samhliða því að ýmsar úrbætur munu tengjast réttarkerfinu.“
Hvað með þig sjálfa, átt þú einhverjar Metoo sögur?
„Já auðvitað á ég Metoo sögur eins og held ég flestar konur og það sem er kannski merkilegt við þessa vakningu er að margt hefur rifjast upp sem maður hefur sett á bakvið sig. Og ég mun einhvern tímann segja frá því seinna.“
En hafa einhverjir karlmenn komið að máli við þig og beðið þig afsökunar á einhverju slíku?
„Já það hafa raunar karlmenn haft samband við mig vegna atvika sem þeir hafa viljað fara yfir. Og mér hefur fundist það gott, að þeir hafa fundið sig knúna til þess í kringum þetta. Og ég hitti nú mann um daginn sem sagðist halda að allir karlmenn í samfélaginu, eftir þessa byltingu, hafi verið að endurhugsa allt og fara yfir allt sem á undan er gengið. Það er auðvitað gott því ég held að það sé mikilvægt að við veltum þessu fyrir okkur hvert og eitt, í okkar huga og hjarta,“ segir Katrín.