Kári Jónsson, liðsmaður Hauka, var einn af lykilmönnum íslenska undir 20 ára landsliðsins sem vann til silfurverðlauna í B-deild Evrópumótsins í körfubolta um helgina.
Nýverið var fækkað í A-deildinni og því tóku fleiri sterkar körfuboltaþjóðir þátt í B-keppninni en verið hefur og afrek íslenska liðsins þar af leiðandi enn stærra fyrir þær sakir.
Sex í liðinu verða gjaldgengir á EM
RÚV hitti á Kára í uppeldisbænum Hafnarfirði í dag og ræddi við hann um mótið og þýðingu þess en Ísland mun spila í A-deild Evrópumótsins í þessum aldursflokki á næsta ári. Sex af tólf leikmönnum sem spiluðu í B-keppninni í Grikklandi eru fæddir 1997 og verða því ennþá gjaldgengir í liðið á næsta ári og Kári er einn af þeim.
Spila á meðal þeirra bestu
„Auðvitað gefur þetta okkur sem vorum í hópnum aukið sjálfstraust en fyrst og fremst er þetta stórt fyrir íslenskan körfubolta,“ segir Kári en aldrei hefur u20-landsliðið náð viðlíka árangri. Í A-keppninni mun íslenska liðið spila við allar bestu þjóðir Evrópu en aðeins þær sextán sterkustu fá keppnisrétt.
Ísland vann feykisterkar þjóðir á borð við Rússland, Pólland og gestgjafa Grikklands á mótinu en tapaði svo í framlengingu í úrslitaleiknum gegn Svartfjallalandi. Þrjár efstu þjóðirnir tryggðu sér rétt til að spila í A-deildinni.
Fjölskyldur og vinir ásamt sendinefnd frá KKÍ tóku á móti strákunum sem lentu í Keflavík í nótt en viðtalið við Kára má sjá í spilaranum hér að ofan.