Kaldhæðin einlægni íslenska hjartans

Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Menningarefni

Kaldhæðin einlægni íslenska hjartans

Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
30.11.2016 - 17:23.Halla Oddný Magnúsdóttir.Menningin, .Kastljós
„Listaverkið sem breytti lífi mínu var uppsetning Leikfélags Reykjavíkur á Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson, sem ég sá þegar ég var þrettán ára,“ segir Vigdís Jakobsdóttir leikstjóri, en Vigdís tók nýlega við starfi listræns stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík. Vigdís ólst upp á Ísafirði, en sá leikritið í sjónvarpinu og varð umsvifalast gripin miklu Þórbergs-æði.

„Uppsetningin sem slík, sem var í leikstjórn Kjartans Ragnarssonar, hafði mikil áhrif á mig, og hvernig ég sá leikhús,“ segir Vigdís. „Ég var byrjuð að gæla við hugmyndina um að kannski væri leikhús minn vettvangur. Og var svolítið áhugasöm um leikhús almennt en hafði lítil tök á að sjá leikhús,“ bætir hún við. „Þarna var verið að vinna með leikmuni frekar en einhverja stóra leikmynd og þetta var allt svona svolítið stíliserað og flott. Jón Hjartarson brilleraði í hlutverki Þórbergs Þórðarsonar og varð einhver útgáfa af honum sem var ekki skopstæling og ekki bara eftirherma, heldur – hann varð bara einhver útgáfa af Þórbergi Þórðarsyni.“

Vigdís veltir því fyrir sér hvað varð til þess að hún varð fyrir svo miklum áhrifum af Þórbergi svona ung. „Og það er eitthvað í afstöðu hans í frásögninni, það er einhver húmor sem er rosalega skemmtilega á skjön,“ segir hún, og bætir við að það sé eitthvað sérstaklega íslenskt við þessa afstöðu Þórbergs. „Það er þessi skemmtilega kaldhæðni en samt svo einlægur tónn sem talar svo til hjartans einhvern veginn – íslenska hjartans.“