Eiríkur Guðmundsson setur landsfund allra landsfunda í Víðsjá.
Góðir félagar, Landsfundurinn með stóru ELLI hefst í dag. Það er mikið fagnaðarefni. Það er tímabært að við komum saman nákvæmlega nú og metum stöðuna, lágt gengi í skoðanakönnunum, sem einkennast af miklum misskilingi, algert hrun meðal ungs fólks, en ræðum um leið um árangurinn sem náðst hefur eftir að versta ríkisstjórn sögnnar hrökklaðist verðskuldað frá völdum. Við vitum svo vel að nóttin er svört en við vitum þeim mun betur að dagurinn er bjartur, og að hann er blár, og að lífið er blátt, og að framundan eru bláir tímar, eins og skáldið sagði.
Góðir félagar, það er veist að okkur úr mörgum áttum, úr öllum áttum jafnvel, og því mikilvægt fyrir mig að fá að ávarpa þennan fund, á þessum tímapunkti, ávarpa ykkur sem sumir segja að hafi sett landið með áræðni og útsjónasemi á hausinn, kolrang t, það voru veðurfræðingarnir sem ollu hruninu, það orsakaðist af því að fiðrildi blakaði vængjum í kauphöll í Singapor, og einhver náungi snýtti sér á sama tíma óvart í New york, og svo fór sem fór, okkar menn lentu bara í þessu, þetta vita allir vel meinandi menn.Við skulum því ekki dvelja við þetta hér.
En góðir félagar, stefna okkar er skýr og hún er klöppuð í stein og hún lifir og blífur. Og já, við eigum erindi, og við höfum hugsjón, hún snýst ekki síst um það að koma brennivíni í búðir og skjól fyrir sköttum, við lifum, og brennum fyrir frelsið. Góðir félagar, þetta er okkar vettvangur, hér tölum við í okkar hóp, hér erum við í góðu skjóli, nokkurs konar skattaskjóli, hér nær okkur enginn, við erum líkt og undir dúnmjúkri sæng, og þeir ná ekki til okkar hingað, vinstrimennirnir sem aldrei vita hvort þeir eru að koma eða fara. Það er sannarlega að okkur sótt, en við munum standast öll þau áhlaup, þessu páskahreti mun slota eins og öðrum éljum. Illugi er hér, góður félagi, hann er ekki af baki dottinn, og Hanna Birna, hún er hér, hún er ekki af baki dottinn, hún er bara alls ekki af baki dottin. Kæru vinir, lífið er gott á Íslandi, við lifum góðu lífi, hér er hagvöxtur, og mikið um happy-hours hjá ungliðunum okkar sem horfa björtum augum til framtíðar, það hefur reyndar eitthvað fækkað í hópnum, en það mun breytast. Að tilheyra þessum góða flokki er að vera til og stefna hraðbyri á næsta happy-hour í góðum félagsskap, einmitt þannig sé ég að við getum náð til unga fólksins, með góðum happy-hour.
Góðir félagar, ég get sagt það hér, í þennan góða hóp, að auðvitað vitum við svosem ekkert hvert við stefnum, það er í eðli okkar, við vitum það eitt að við viljum græða, svo það sé sagt, framtíð Íslands er björt, en bara ef við græðum og stöndum um leið vörð um grunngildi flokksins, stefnuna sem felst í því að græða, og fara svo lóðbeint á hausinn og taka hyskið með okkur niður í fallinu. Fallinu, ég nefndi þetta orð, fall, og þeir eru til, já þeir eru sannarlega til, sem vilja kenna okkur, góðir félagar, um fallið. En ég segi við ykkur, kæru vinir, fallið kom að utan, það voru aðrir sem féllu, svo barst fallið hingað, gleymum því, nú skulum við rísa upp, ná til unga fólksins, og fljúga hærra en við höfum nokkurn tímann flogið, hærra en á tímum Ólafs, Bjarna og Davíðs, það voru happy tímar, og það er mín tilfinning að í lífi íslenskrar þjóðar sé nú runninn upp einn allsherjar happy-hour, og við skulum halda honum gangandi, hvað sem hver segir, við skulum hafa þann klukkutíma langan. Við skulum hafa sjötíu mínútur í þeim klukkutíma. Og við skulum hafa þá marga.
Góðir félagar, við höfum erindi, við þurfum bara að finna það erindi, að minnsta kosti klæða það í þann búning að fólkið, og þá ekki síst, unga fólkið, bíti á agnið. Framundan er einkavæðing banka, hverjir eiga að fá þá, kommúnistar? Ég segi nei, við einir kunnum að reka banka eins og dæmin sanna, eða eins og Einar Benediktsson orti á sínum tíma, nei nú man ég ekki hvað hann orti, en hann var einmitt að yrkja um þetta og orðaði það vel.
Góðir félagar, lífið er stutt, sagði skáldið, og lífið er nýtt, og lífið er ljóð, við erum hér saman komin til að lifa, á landsfundi erum við kóngar, við erum riddarar, og biskupar íslands, við vöknum á morgnana, förum fram úr og vitum að við erum biskupar Íslands, við höfum hefðina, fortíðin var okkar, og framundan eru yndislegir tímar, en bara ef enginn truflar okkur, ef við höldum ótrauð áfram og enginn truflar okkur verður framtíðin björt. Góðir landsfundargestir, kæru vinir, við höfum ekkert fylgi, það hlustar enginn á okkur, það er rétt, einhverjir kunna að halda því fram að við, gömlu, klassísku stjórnmálamennirnir, séum ekki annað en útdauðar risaeðlur, að erindi okkar sé minna en ekkert, að við séum spillt, að við hyglum aðeins okkar eigin fólki, að ráðherrar okkar eigi í stöðugum vandræðum vegna eigin dómgreindarbrests, en við þetta sama fólk segi ég: hér erum við, og við erum í jakkafötum og eigum hús og jeppa, kött og hund, sem þarfa að viðra og hann þarf að pissa, við þetta fólk segi ég: við erum lífið og lífið er núna.
Kæru vinir, við lifum nú stóra tíma, svo stóra að þeir skyggja á fullt tunglið, og á stórum tímum er það flokkurinn sem tekur til máls og talar inni heit hjörtun. Í huga mér er vor, íslenskt vor. Íslenska þjóðin hefur alltaf reitt sig á okkur. Þegar við erum stórir er íslenska þjóðin stór. Á miklum tímum þarf þjóðin mikinn flokk. Við erum sá flokkur. Það er ekki eins og árangurinn láti á sér standa: Við erum í góðri stöðu til að skipta á milli okkar auðæfum þjóðarinnar, og ef okkur tekst það, ef við höldum vel á okkar spilum verður næsti happy-hour haldinn á sjálfu tunglinu og hann mun standa lengi, það verður langur klukkutími, ég skal lofa ykkur því. Seljum vín í öllum kjörbúðum, seljum vín í apótekum og byggingarvöruverslunum, í bönkum og bakaríum, og stöndum þannig vörð um grunngildin, sem eru, þegar að er gáð, grunngildi þjóðarinnar, því þegar grannt er skoðað, þá eru þjóðin og flokkurinn eitt. Við erum sjálfstætt fólk, við munum sigra, og við munum stjórna, Hanna mín, ertu nokkuð að detta út? Illugi, er flygillinn farinn að kalla á þig, flygillinn sem blekkti alla vitleysingana vinstramegin en nú vita allir að þú ert alveg eins og við, sannur alveg í gegn, ekta happy-hour gaur, enda gamall aðstoðarmaður meistarans. Nei góðir félagar, öndum rólega, okkar gildi munu blífa, þótt á móti kunni að blása, útgerðin mun halda okkur á okkur á floti og það verður gott flot.
En ágætu félagar, framundan er góður landsfundur, mjög góður landsfundur, hér erum við fiskar í okkar eigin vatni, fuglarnir syngja kannski ekki mikið lengur, það er komið haust, ég er skáld. Auðvitað eigum við okkur draum, ég man bara ekki alveg í svipinn hver hann er, og þó, jú, nú man ég hann, það er draumur um fagran íslenskan fuglasöng og vinalega bjórdælu. Látum ekki vansælt úrtölufólk tala úr okkur kjarkinn, náum til unga fólksins sem er framtíðin, það er mikilvægt, auðvitað er fylgið í sögulegu lágmarki, við þurfum bara að leiðrétta það. Framtíðin, segi ég, hvað er mikilvægara en framtíðin, hún er ekki á netinu, svo mikið er víst, við látum enga sjóræningja ræna henni frá okkur, því hún er okkar, alveg eins og fortíðin var okkar. Höldum hnarreist áfram, inn í nýja framtíð, inn í okkar framtíð, verum áfram sú kjölfesta í íslensku þjóðlífi sem þessi flokkur hefur alltaf verið. Þá mun íslenskri þjóð farnast vel, að öðrum kosti fer hér allt til helvítis. Ég segi fundinn settan!