Kærði Brúnegg til lögreglu vegna Grjóteyrar

12.05.2017 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis kærði eggjaframleiðandann Brúnegg til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um miðjan febrúar á þessu ári þegar í ljós kom að starfstöð fyrirtækisins að Grjóteyri í Kjósarhreppi var ekki með starfsleyfi frá eftirlitinu. Starfsstöðin var engu að síður með leyfi frá Matvælastofnun.

Í kærunni kemur fram að heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis hafi kallað eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um fjölda fugla sem haldnir væru í starfsstöðvum Brúneggja.

Sá fjöldi þurfi að liggja fyrir til að hægt sé að reikna út magn á skít sem verður til á búunum og meðhöndla í samræmi við starfsskilyrði.

Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins, segir í samtali við fréttastofu að þetta hafi verið gert eftir umfjöllun Kastljóss um málefni Brúneggja í lok síðasta árs.

Í svari Matvælastofnunar til eftirlitsins, sem dagsett er 10. janúar, kom fram að frá því í ágúst 2015 hafi Brúnegg verið með starfsemi að Grjóteyri í Kjósahreppi.  Brúnegg var hins vegar ekki með starfsleyfi fyrir umræddu búi hjá heilbrigðiseftirlitinu og var fyrirtækið því kært til lögreglu fyrir óleyfisstarfsemi.

Árni Þór Sigmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við fréttastofu að kæra vegna málsins hafi borist og að það sé til rannsóknar. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið.

Í bréfi sem Kristinn Gylfi Jónsson, annar eigandi Brúneggja, sendi heilbrigðiseftirlitinu 19. janúar baðst fyrirtækið velvirðingar á því að hafa ekki „látið vita á sínum tíma að þar [Grjóteyri] hefði verið sett upp ungauppeldi í samstarfi við bóndann á Grjóteyri en það átti upphaflega að vera til skamms tíma.“ Sótt yrði um starfsleyfi á næstu dögum. Það var þó aldrei gert .  Auk þess var tekið fram að hænsnaskítur hefði farið þar á tún sem áburður. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu töldu forsvarsmenn Brúneggja að þeir hefðu ekki þurft að sækja um starfsleyfi fyrir starfstöðina á Grjóteyri - hún væri rekin á lögbýli og væri í umsjá bóndans á staðnum.  

Í gögnum sem fréttastofa óskaði eftir kemur jafnframt fram að heilbrigðiseftirlitið áminnti Brúnegg um miðjan janúar á þessu ári vegna skorts á aðstöðu til að láta hænsnaskít brjóta sig og vegna ólöglegrar ráðstöfunar á skít. 

Heilbrigðisnefnd KJósarhrepps staðfesti áminninguna á fundi sínum í byrjun febrúar. Nefndin hótaði því jafnframt að takmarka eða stöðva starfsemi Brúneggja ef ekki yrðu gerðar úrbætur eða ef fyrirtækið yrði áfram staðið að áframhaldandi brotum á starfsleyfi.

Tæpum mánuði seinna óskuðu eigendur Brúneggja eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotameðferðar og að öllu starfsfólki fyrirtækisins hefði verið sagt upp.