Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörinn formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á fundi nefndarinnar í morgun. Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, var kjörinn varaformaður nefndarinnar.
Upplausn hefur ríkt í nefndinni allt frá því að Bergþór Ólason, fráfarandi formaður og þingmaður Miðflokksins, settist aftur á þing. Á síðasta fundi nefndarinnar lagði minnihluti hennar og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, til að kjörinn yrði nýr formaður. Því var vísað frá.
Frá þeim tíma hafa þingflokksformenn tekist á um það hvernig formennska í nefndinni yrði háttað. Þegar núverandi meirihluti VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var myndaður síðla árs 2017 var samið um það á milli þingflokkanna að minnihlutinn fengi formennsku í þremur nefndum, velferðarnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Kjör Jóns Gunnarssonar er ekki í samræmi við þá niðurstöðu.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, segir niðurstöðuna dapurlega í ljósi þess að búið var að semja um að formennskan í nefndinni tilheyrði minnihlutanum.
Lögð hafi verið fram tillaga um Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmann Viðreisnar, sem formann nefndarinnar og sú tillaga hafi verið felld.
Rósa segist hafa stutt Hönnu Katrínu Friðriksson en Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason hafi stutt tillögu meirihlutans.
Bergþór Ólason segist hafa lagt fram tillöguna um Jón Gunnarsson og honum lítist vel á niðurstöðuna. Bergþór hefur ekki áhyggjur af því að minnihlutinn sé að missa formennsku í einni nefnd. „Í raun var það fráleit nálgun að aðrir minnihlutaflokkar gerðust sérstaklega frekir til fjárins á grundvelli þess ósamkomulags sem upp kom.“