Jón Kalman Stefánsson hlaut í gær verðlaun franska bókmenntatímaritsins Lire fyrir bestu erlendu skáldsöguna sem kom út í Frakklandi árið 2015, Fiskarnir hafa enga fætur. Víðsjá á Rás 1 sló á þráðinn til Jóns.

Skilaboð til Parísar

Verðlaunaafhendingin fór fram í Grand Palais í París í gærkvöldi. Jón Kalman sat heima en útgefandi hans frá Gallimard útgáfunni færði samkomunni skilaboð. „Ég var í París í síðustu viku þannig að ég hef skynjað vel það sem er að gerast þar,“ segir Jón Kalman. „Ég fór aðeins inn á það og talaði um að bókmenntir stöðvi ekki byssukúlur eftir að búið er að hleypa af og orð eru gagnslaus þegar sprengjan er sprungin. En ég talaði um að bókmenntir gætu verið skotheld vesti gegn öfgafullri hatursumræðu og þröngsýni og tækifærismennsku stjórnmálamanna.“

Jón er stoltur og glaður yfir nýju verðlaununum. „Frakkar eru mikil bókmenntaþjóð og jafnvel meiri bókmenntaþjóð en við þannig að þetta er að sjálfsögðu heiður.“ Hann segist þurfa að finna jafnvægi milli þess að vera heima og skrifa og að ferðast til að styðja við útgáfustarfið í Frakklandi og víðar. „Ég er mjög heppinn, er með stórkostlegan þýðanda og útgáfan Gallimard er risastór útgáfa en hún er persónuleg. Þetta er hlýr faðmur.“   

Virt verðlaun

Franska bókmenntatímaritið Lire veitir verðlaun í ýmsum flokkum bókmennta árlega, bæði fyrir franskar bókmenntir og þýddar bækur. Bókmenntatímaritið Lire var stofnað árið 1975 en það fjallar um fjölbreyttar hliðar bókmenntanna, t.d. um fagurbókmenntir, afþreyingarbókmenntir, ljóðlist, vísindaskáldskap og heimspeki svo eitthvað sé nefnt. Þýðandi Jóns í Frakklandi er Eric Boury sem þýtt hefur verk fjölmargra íslenskra höfunda en ár mun líða þar til nýjasta bók Jóns, Eitthvað á stærð við alheiminn, kemur út þar í landi.  

Hér að ofan má heyra stutt viðtal við Jón og lestur hans úr verðlaunabókinni, Fiskarnir hafa enga fætur, frá árinu 2013.