Jane Fonda áttræð í kostulegri ástarsögu

15.05.2017 - 15:07
Leikkonan og líkamsræktardrottningin Jane Fonda verður áttræð á árinu, en ferill hennar stendur í blóma sem aldrei fyrr. Hún fer með annað aðalhlutverkið í gamanseríunni Grace and Frankie. Þættina prýðir einvalalið leikara af eldri kynslóðinni, en auk Jane eru Lily Tomlin, Sam Waterston og Martin Sheen í burðarhlutverkum.

Áhrif aldraðra á poppmenningu

Samkvæmt rannsókn á vegum Heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna (NIH) frá árinu 2015 eru um 8,5% Bandaríkjamanna í hópi 65 ára og eldri. Árið 2050 er reiknað með að þessi tala verið komin upp í 17%. Það er óhætt að ætla að þessar breytingar muni hafa áhrif á dægurmenningu og poppkúltúr framtíðarinnar. Þættirnir Grace and Frankie eru ef til vill viðbragð við þessari breyttu heimsmynd, en þar eru aðalpersónur og leikarar á áttræðis- og níræðisaldri.

Árekstar við nútímatækni

Grace and Frankie fjallar um tvær giftar konur á efri árum sem verða fyrir áfalli þegar eiginmenn þeirra, viðskiptafélagar til margra ára, tilkynna þeim að þeir séu ástfangnir af hvorum öðrum og að þeir ætli að gifta sig. Auk þess fylgir sögunni að þeir hafi átt í leynilegu ástarsambandi síðustu 20 árin. Þessum fréttum fylgir allsherjar uppgjör þar sem persónurnar þurfa að endurskoða líf sitt og leita inn á við - og út, í leit að ást og lífshamingju. Þættirnir spyrja stórra og klassískra spurninga sem tengjast hinu mannlega ástandi og ævikvöldinu, en ekki síður er þungamiðja þáttanna árekstrar eldri kynslóðarinnar við nútímann og tækninýjungar. Persónurnar gera sitt besta til að aðlagast, oft með kostulegum afleiðingum, en þrátt fyrir það nálgast sagan efnið af mannvirðingu og kærleika.

Frægustu augabrúnirnar í bransanum

Mótleikkona Jane Fonda er stórstjarnan Lily Tomlin, sem fædd er 1939. Lily hóf ferilinn sem gamanleikkona á sjöunda áratug siðustu aldar, lék mikið á sviði, átti glæstan kvikmyndaferil og lék til dæmis ásamt Jane Fonda og Dolly Parton í kvikmyndinni 9 to 5 árið 1980. Hlutverk eigimannanna eru í höndum tveggja stórleikara, hins geðþekka Sam Waterston, eiganda frægustu augabrúna í bransanum, sem margir þekkja úr þáttunum Law and Order og seinna úr The Newsroom, en Jane Fonda lék einnig aukahlutverk í þeim síðarnefndu.  Að lokum er það leikarinn Martin Sheen sem vart þarf að kynna, en það er sérstaklega gaman að sjá hann leika samkynhneigðan eldri borgara í lífskrísu, og fara þannig langt út fyrir þau hlutverk sem hann er þekktastur fyrir.

Mynd með færslu
 Mynd: samsett mynd
Sam Waterston (v) og Martin Sheen leika viðskiptafélagana sem yfirgefa eiginkonur sínar og hefja ástarsamband.

Kynslóðabilið speglað

Þættirnir eru grín- drama og valda þeim stimpli mjög vel. Áhorfandinn hristist af hlátri eina stundina en síðan koma kaflar þar sem alvaran ræður ríkjum og farið er í þyngri stef. Auk þess koma börn og barnabörn við sögu sem gefa sögunni aukið líf og endurspegla kynslóðabilið á skemmtilegan og sannfærandi hátt. Þar er vel mannað í öll hlutverk og er sannkölluð veisla að fylgjast með því. Þegar eru komnar þrjár seríur af Grace and Frankie og í apríl voru síðan undirritaðir samningar um framleiðslu á þeirri fjórðu.

Þættirnir eru aðgengilegir á Netflix.