Jafnréttisstofa er fjársvelt, fámenn, kvenlæg, afskekkt og hefur fá úrræði á valdi sínu. Svo virðist sem jafnréttismálin hafi mætt afgangi hjá stjórnvöldum. Svo hljóðar gagnrýni viðmælenda Spegilsins á Jafnréttisstofu. Starfsmaður Jafnréttisstofu tekur undir hana að hluta.

 Margvíslegar skyldur

Höfuðstöðvar Jafnréttisstofu eru á Akureyri en hún hefur líka útibú með einum starfsmanni í Reykjavík. Hjá stofnuninni starfa sjö manns, sex konur og einn karl. Stofnunin hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna sem sett voru árið 2008 og á meðal annars að veita ráðgjöf og fræðslu um jafnréttismál, koma tillögum að aðgerðum á framfæri við stjórnvöld, rannsaka þróun jafnréttismála í þjóðfélaginu, vinna gegn launamisrétti og kynbundnu ofbeldi, leita sátta í ágreiningsmálum og auka aðild karla að jafnréttisstarfi.

Eftirliti með brotum kunni að vera ábótavant

Í nýrri skýrslu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, sem kynnt verður á morgun, er hvatt til þess að starfsemi Jafnréttisstofu verði efld og viðraðar áhyggjur af því að eftirliti með jafnréttislagabrotum kunni að vera ábótavant vegna bágrar fjárhagsstöðu stofnunarinnar.

Langt frá stærsta atvinnusvæðinu

Katrín Ólafsdóttir, hagfræðiprófessor, sat í verkefnisstjórn. Hún telur að Jafnréttisstofa hafi ekki bolmagn til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu. „Jafnréttisstofu eru ætluð gríðarlega mörg verkefni, og við vitnum í lögin í skýrslunni. Þetta er ekki stór stofnun þannig að hennar bolmagn til að sinna þessum störfum er gríðarlega lítið. Við það bætist að hún er staðsett langt frá stærsta atvinnusvæðinu og frá mjög mörgum atvinnusvæðum þannig að það er áhyggjuefnil líka. Hún hefur heimildir til að beita valdi sem hún hefur ekki gert. Nú eru til dæmis komin lög um kynjakvóta og í þeim eru hvergi viðurlög við að brjóta þau. Maður veltir því fyrir sér hvaða hótun er hægt að beita ef ekki er farið að lögum þannig að þetta er dálítið áhyggjuefni,“ segir Katrín. 

Stenst ekki samanburð við aðrar eftirlitsstofnanir

Hún segir stofnunina ekki standast samanburð við aðrar eftirlitsstofnanir ríkisins, svo sem samkeppniseftirlitið eða fjármálaeftirlitið. „Hennar verkefni eru síst minni þannig að þetta virðist ekki vera áhyggjuefni meðal stjórnvalda.“ Málaflokkurinn sé mikilvægur, ekki bara út frá réttindasjónarmiðum heldur einnig efnahagslegum sjónarmiðum. „Það eru rannsóknir sem sýna að fyrirtæki sem stjórnað er af bæði körlum og konum, þeim vegnar betur þannig að þetta er hagsmunamál okkar allra,“ segir hún. 

Geta ekki kallað eftir stöðuskýrslum frá fyrirtækjum

Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur hjá Jafnréttisstofu, tekur undir með Katrínu og segir að það þyrfti að efla stofnunina, fjölga starfsmönnum og auka fjárveitingar.„Til dæmis myndum gjarnan vilja geta kallað eftir skýrslum um stöðu jafnréttismála frá fyrirtækjum og stofnunum á reglubundinn hátt. Það höfum við því miður ekki getað gert ennþá en vonandi getum við það á næstu misserum. Við höfum kallað eftir slíkum skýrslum frá sveitarfélögum,“ segir hún. 

Akureyri ekki vandamál

Hún segir að vel hafi gengið að sinna eftirlitshlutverkinu sem snúi að um 1500 aðilum; sveitarfélögum, skólum, stofnunum og fyrirtækjum. Það hafi þó þurft að forgagnsraða stíft og fókusinn hafi verið á að kalla eftir jafnréttisáætlunum. Hún segir staðsetningu stofnunarinnar á Akureyri ekki hafa aftrað starfsemi hennar.„Eftirlitsstarfseminni sinnum við fyrst og fremst í gegnum tölvupóst og síma þannig að staðsetning Jafnréttisstofu hindrar okkur ekkert í daglegum störfum okkar. Þessi þáttur í starfsemi okkar, eftirlitið hefur gengið mjög vel. Fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög bregðast vel við þegar Jafnréttisstofa kallar eftir Jafnréttisáætlunum,“ segir hún. 

Nægir að nefna dagsektaheimildina

Stofnunin hefur heimildir til þess að beita stofnanir og fyrirtæki sem skila ekki fullnægjandi jafnréttisáætlunum dagsektum, allt að 50 þúsund krónum, sem renna í ríkissjóð. Því úrræði hefur þó ekki verið beitt. Ingibjörg segir að ekki hafi gefist tilefni til þess. Varðandi þennan þátt þá höfum við kosið að reyna að samþætta í því tvenns konar hlutverk sem við höfum samkvæmt lögum, eftirlit og ráðgjöf. Þess vegna höfum við frekar lagt áherslu á samstarf og að aðstoða við að koma þessum hlutum í réttan farveg fremur en að vera sú stofnun sem er með fingur á lofti og sektar,“ útskýrir hún og bætir við að oft nægi að nefna dagsektaheimildina til þess að ýta við fyrirtækjum og stofnunum sem ekki hafa staðið sig í stykkinu.

Útgáfustarfsemi fjármögnuð af Evrópusambandinu

Í ár fær stofnunin 94 milljónir í sinn hlut. Ingibjörg segir að um 12 milljónir fari í húsaleigu og álíka summu verði varið til þess að fjármagna verkefnið Karlar til ábyrgðar. Hún segir ljóst að stofnunin þyrfti meira fé til þess að sinna fræðslu, námskeiðahaldi og útgáfu en öll útgáfa á vegum hennar hefur síðastliðin ár verið fjármögnuð með verkefnisstyrkjum úr sjóðum Evrópusambandsins. Henni finnst að fjárveitingar frá ríkinu ættu að nægja til að sinna allri þeirri starfsemi sem kveðið er á um að stofnun sinni samkvæmt lögum. Stofnunin sinni þó sínum lögbundnum verkefnum, það séu umframverkefnin sem detti upp fyrir.

Starfsemin hugsanlega útvíkkuð

Síðastliðin misseri hefur verið rætt um að innleiða mismununartilskipanir Evrópusambandsins sem mæla fyrir um bætta stöðu minnihlutahópa. Í þeirri vinnu hefur verið lagt upp með það, eftir því sem við best vitum, að Jafnréttisstofa myndi sinna því hlutverki og því hlýtur að fylgja aukið fjármagn,“segir Ingibjörg. 

Skiptar skoðanir innan Jafnréttisráðs

Í jafnréttisráði sitja ellefu manns, sex konur og fimm karlar. Hlutverk ráðsins er að starfa í nánum tengslum við Jafnréttisstofu og vera ráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun. Innan ráðsins eru skiptar skoðanir þegar kemur að mætti eða máttleysi Jafnréttisstofu. Sumir segja stofnunina fjársvelta, einn meðlimur sagði hana tannlausa og benti á að hún gæti ekki beitt refsiheimildum gegn stofnunum sem brjóta lög um kynjakvóta í stjórnum. Aðrir segja stofnunina öfluga en bæta við að hún gæti verið enn öflugri með auknu fjármagni og meiri mannafla.

Gagnrýnir kynjahlutfall starfsmanna

Karvel Aðalsteinn Jónsson, situr í ráðinu fyrir hönd Félags um foreldrajafnrétti. Hann segist myndu vilja breyta jafnréttisumræðunni almennt, hún snúist aðallega um konur en málefni sem varði karla fái minna vægi. Þá gagnrýnir hann kynjahlutföllin hjá Jafnréttisstofu, en þar starfa sex konur og einn karl. Ingibjörg segir ástæðuna þá að störf hafi ekki losnað lengi og að þegar það hafi gerst hafi karlar ekki sótt um eða konur verið metnar hæfari. Hún segir að það verði forgangsmál að ráða inn karlmann næst þegar starf losnar.