Jafnmikið örplast er í maga fisks við vesturströnd landsins, hvort sem heimkynni hans eru á sjávarbotni eða ofar. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar. Anne de Vries er nú á lokaspretti við gerð meistaraverkefnis. Hún er í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða og rannsakar plastmagn í maga þorsks og ufsa. Anne kynnti rannsóknirnar á málstofu hjá Hafrannsóknastofnun í dag.

„Ég valdi þorskinn því að hann er botnfiskur og hrææta. Tegund sem heldur sig við botninn og étur allt sem til fellur þar. Ufsinn er uppsjávarfiskur og nærist helst í uppsænum sem er allt frá yfirborð og að sjávarbotni,“ segir Anne.

Hugmyndin er að rannsaka þessar tvær tegundir því heimkynni þeirra eru ólík. „En samt virtust engn tengsl í niðurstöðum mínum benda til þess.“

Mætti því segja að það sé plast að finna þarna víða?  „Já, svo virðist vera.“

 

Áttatíu prósent af plasti í sjónum berast frá landi. „Manni koma í hug lækningavörur en einnig mikið frá heimilisrekstri. Svo eru það snyrtivörur, tannkrem; í því er örplast. Líka í sápu og sjampói.“

Hin tuttugu prósentin koma að mestu frá sjávarútvegi, til dæmis úr skipamálningu, og farmi sem fellur í sjóinn.

Almenningur getur lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn plastmengun í sjónum, að sögn Önnu. Til dæmis getur fólk sleppt því að setja ávexti í plastpoka í búðinni og keypt snyrtivörur sem ekki innihalda örplast.