Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtal sex þingmanna á Klausturbar í nóvember, vísar því á bug að fleiri en hún hefði tekið þátt í því að taka upp samtalið eða að hún hefði tekið samtalið upp með öðrum hætti en hún hefur áður lýst. Hún hafi verið þar ein á ferð. „Bara ég og kaffibollinn minn.“ 

Bára segist litlu nær út á hvað málið gengur eftir setuna í dómsal síðdegis. „Ég hélt að ég yrði miklu skýrari um hvað þetta snerist þegar ég labbaði út en ég er ekki ennþá neinu nær nema það að ég held að sóknaraðili vilji fá gögn í gegnum þennan ferli og við viljum fá að vita hvað í raun og veru þeir ætla að gera, hvort þeir ætla að fara í einkamál eða hvað þeir ætla að gera og þar sé hægt að afla sömu gagna.“

Fjórir þingmenn Miðflokksins, sem heyrðust tala illa um fólk á upptöku Báru á Klausturbar, eru skráðir sóknaraðilar á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur. Reimar Pétursson, lögmaður þeirra,  sagði að þingmennirnir fjórir hefðu málshöfðun til skoðunar og að markmiðið með vitnaleiðslubeiðni væri einfalt: þeir vildu tryggja að sannað yrði hvernig brotið hefði verið gegn þeim. Mikilvægt væri að leggja fyrir dóminn myndefni af eftirlitsmyndavélum Alþingis og Klausturs sem sönnuðu hvernig brotið hefði verið gegn þingmönnunum. Það ætti að vera hægt að sjá nákvæmlega hvernig hún hefði haldið upptökunni leyndri fyrir þingmönnunum og hvort einhverjir hefðu framkvæmt brotið með henni. 

Bára segir það af og frá að hún hafi átt sér samverkamenn eða að hún hefði tekið upp samtalið með öðrum hætti en hún hefur lýst.  „Það finnst mér skemmtilega fáránlegt. Ég lýsti því í Morgunútvarpinu á Rás 2 að ég er ekki mjög óáberandi manneskja þannig að ef ég hefði verið að elta þá á röndum þá hefðu þeir átt að vera búnir að taka eftir mér og ég skapaði ekki orðin sem þeir komu frá sér heldur,“ sagði Bára Halldórsdóttir í viðtali við Stíg Helgason fréttamann. Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

„Ég er ein af þeim sem hef hlustað á svona tal alla mína ævi og mér fannst það þess virði að koma því beint og hrátt út og hægt að ræða um hvernig veröldin er stundum.“ 

Aðspurð sagðist Bára ætla heim að hvíla sig. „Ég lagði þónokkuð á mig lyfjalega og annars til þess að koma hérna og ég ætla að reyna að kyssa eins marga eins og ég get á leiðinni út fyrir að vera svona góðir við mig og svo ætla ég bara heim að hvíla mig og svo vonandi að geta farið í jólapælingar á morgun.“