Framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, sem fram fer í Tel Aviv í Ísrael í maí, verður valið á laugardag og óhætt er að segja að lag Hatara, Hatrið mun sigra, hafi vakið eina mestu athygli af þeim fimm lögum sem koma til greina. Þórunn Ólafsdóttir sem starfað hefur að mannúðarmálum í Palestínu er ekki hrifinn af vegferð Hatara og telur sniðgöngu hið eina rétta.
Blaðagrein eftir Nínu Hjálmarsdóttur, listgagnrýnanda, undir yfirskriftinni „Að eigna sér baráttu annarra – Hatari í Eurovision“ birtist í Stundinni á dögunum og vakti mikla athygli. Þar segist Nína meðal annars ekki efast um að liðsmenn hljómsveitarinnar séu einlægir í stuðningi sínum við málstað Palestínu, en hún heldur því fram að með gjörningi sínum vinni þeir gegn málstaðnum, þeir eigni sér baráttu annarra. Liðsmenn Hatara hafa sagt að fráleitt sé að taka þátt í söngvakeppni sem haldin er í ríki sem traðkar á mannréttindum, en úr því sem komið sé, verði Íslendingar að nýta dagskrárvald sitt til að vekja athygli á pólitísku inntaki keppninnar og framgöngu Ísraelsríkis. Þórunn Ólafsdóttur sem starfað hefur að mannúðarmálum í Palestínu og víðar, ræddi við umsjónarmenn Lestarinnar á Rás 1 um ýmsar hliðar þessa flókna máls.
„Að fara eigin leiðir í baráttu annars fólks er ekki alveg leiðin sem ég hefði kosið að fara. Ég er sjálf talskona sniðgöngu og er það einfaldlega vegna þess að það er sú aðferð sem baráttufólkið í Palestínu hefur óskað eftir stuðning við,“ segir Þórunn og vill meina að þátttaka í keppninni útiloki sniðgöngu, eitt útilokar annað í þessum efnum. „Þó ég telji að Hatari vilji vel og ég hef fullan skilning á að fólk vilji leggja sitt á mörkum í þessarri baráttu, þá er nálgunin ekki alveg sú sem ég hefði viljað sjá. Einfaldlega vegna þess að sniðganga er sú aðferð sem Palestínumenn hafa óskað eftir stuðning við,“ segir Þórunn.
Þórunn segist hafa á því fullan skilning að þeir vilji leggja sitt af mörkum með þessu móti en rifjar það upp þegar hún sjálf heimsótti Palestínu og kynntist baráttu fólksins á svæðinu, sem berst fyrir frelsi sínu á sinn hátt: „Það fólk óskar eftir stuðningi við aðferðir sem virkað hafa áður, til dæmis eins og í Suður-Afríku, því það sem er í gangi í Palestínu er ekkert annað en ofboðslega hörð aðskilnaðarstefna. Baráttan er alltaf leidd af Palestínumönnum og okkur er velkomið að styðja fólkið í sinni baráttu – eða ekki. Það var svolítið inntakið hjá samtökunum sem ég vann með og gaf mér sterka innsýn í því hvernig mannréttindabarátta er gagnleg,“ segir Þórunn og ítrekar að það sé vilji fólksins að Palestínumenn sjálfir leiði baráttuna.
Sniðganga er sterkasta vopnið
„Það hefur sýnt sig að Ísraelsríki óttast sniðgöngu mjög. Það verða aldrei sterkari viðbrögð hjá stjórnvöldum þar en þegar einhvers konar sniðganga fer af stað,“ segir Þórunn og vill meina að ávallt fari af stað einhver atburðarás hjá ísraelskum stjórnvöldum í kjölfar sniðgöngu. „Svo er það þannig að margir vilja aðskilja keppnina hér heima og svo aftur keppnina úti. Það yrði alltaf fréttnæmt ef söngvakeppnin á Íslandi, sem hefur alltaf verið eins konar þjóðhátíð hér heima með öllu sínu havaríi og sameinar þjóðina í áhorfi, fengi dræmt áhorf hér vegna þess að fólk vill senda þessi skilaboð til RÚV eða út til Ísrael,“ segir Þórunn.
Margir sem hafa tjáð sig um söngvakeppnina og framlag Hatara telja að það sé rökrétt, að úr því sem komið sé, að þeir sem fari út til Tel Aviv taki til máls með einhverjum hætti. Þórunn er ekki sama sinnis. „Þó að RÚV hafi tekið þá ákvörðun að taka þátt í keppninni þá gerir RÚV það ekki án listafólks, það er undir listafólkinu komið hvort það vilji leggja sitt á mörkum. Ég held að áhorfstölur á söngvakeppnina hér heima hljóti að vera aðeins betri en til dæmis Hatari hefði ekki tekið þátt. Ef Hatari hefði ekki verið þetta atriði, sem varð að eins konar afsökun þeirra sem misbýður þó að keppnin sé haldin í Ísrael. Þetta er allt mjög flókið. Svo er líka spurning hvernig er með það dagskrárvald sem þeir tala um á endanum, hvaða tækifæri þeir fá til að tjá sig um þessi mál. Ég skil bara ekki þessa vegferð, svo ég sé hreinskilin,“ segir Þórunn Ólafsdóttir um framlag Hatara og þátttöku okkar í Eurovision í Tel Aviv í maí.