„Lesandi sem fílar alvöru sögulegar skáldsögur fær heldur betur fyrir snúð sinn," segir Steinunn Inga Óttarsdóttir um nýja skáldsögu Bergsveins Birgissonar, Lifandi lífslæk, sem nýlega var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Steinunn Inga Óttarsdóttir:
Á átjándu öld var ástandið hér á landi orðið svo bágborið vegna náttúruhamfara, hungursneyðar og viðskiptaeinokunar, að kóngur vor í Kaupinhafn sá sig tilneyddan að ganga í málið. Hann hafði lengi haft nokkurn ama af þessari kotþjóð og fulltrúum þeirra við dönsku hirðina sem voru sífellt nauðandi um kjara- og réttarbætur, en hafði líka af henni nokkurn arð, m.a. af skreið og lýsi, og sá fram á að tekjulind þessi mundi þverra ef ekkert yrði að gert. Ungur vísindamaður er því fenginn til að fara til Íslands í þeim tilgangi að gera úttektarskýrslu eða „allsherjarprotocoll“ eins og það er kallað, svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana, þ.e. að flytja þá tæplega 40.000 Íslendinga sem enn tórðu á brott og fá þeim sæmilegt húsnæði og atvinnu í dönskum kaðla- og spunaverksmiðjum.
Skáld og fífl
Þetta er í örstuttu máli sögulegur bakgrunnur Lifandi lífslækjar, nýrrar skáldsögu Bergsveins Birgissonar; eins konar leiktjöld fyrir ísmeygilega ádeilu á vald, forréttindi og fordóma. Eitt af hlutverkum skáldsögu er að afhjúpa valdið í öllum sínum myndum og hér er það einkar vel gert, líkt og fyrri verkum Bergsveins, t.d. Geirmundar sögu heljarskinns (2016) þar sem landnám Íslands er undir og sýnt í nýju ljósi sem valdabrölt gírugra þrælahaldara. Gaman er að geta þess að Bergsveinn sjálfur birtist í þeirri bók í örlitlu hlutverki skálds sem fær háðulega meðferð og hann birtist líka í aukahlutverki í Lifandi lífslæk eins og einhvers konar Stan Lee; fífl sem hjalar óráð og þylur illar spár og skapar þannig spennu hjá fulltrúum ólíkra viðhorfa til skynseminnar.
Ljós skynseminnar
Sagan hefst í Kaupmannahöfn á ráðagerðum Dana og þar lifna við þjóðkunnir karlar, Magnús Stephensen og Jón Eiríksson, framfarasinnaðir embættismenn og sérfræðingar í málefnum Íslands sem þó er ekkert hlustað á í ráðuneyti konungs. Í borginni ferðast vellauðug verslunarelítan um upplýst stræti og torg í hestvagni, ilmandi af lavender og kryddvíni. Það eru nýir tímar, vísindin hafa tekið þann sess í huga fólks sem guð skipaði áður, hjátrú og hindurvitni tilheyra myrkri fortíðar en myndmál hins nýja hugsanagangs einkennist af ljósi skynseminnar. Þar með eru örlög fólks ekki lengur í hendi guðs, hægt er að halda því fram að fátækt og eymd séu manni sjálfum að kenna og lag fyrir valdhafa að skáka í því skjóli.
Draugar og mörur
Aðalsöguhetjan, Magnús Árelíus Egede, er embættismaður sem tilheyrir danskri forréttindastétt. Hann er metnaðargjarn landkönnuður og dyggur aðdáandi vísinda og upplýsingar, með nýtískulega hárkollu, klæddur hvítu vesti og blúndum skreyttur. Hann er skrýtin blanda af manni (165), upplýstur vísindamaður sem verður eins og lítill drengur þegar hann talar íslensku, sitt annað móðurmál (54), skotið dönskuslettum og latínufrösum (en mál og stíll sögunnar fanga tíðarandann sérlega vel og eru efni í langa stúdíu á öðrum vettvangi). Magnús þjáist af flogaveiki og er í ofanálag rammskyggn sem fer ekki vel með rökvísinni. Í flogaveikiköstum og óráði sækja draugar og mörur að honum, íslensk alþýða stígur fram og lýsir kúgun í gegnum aldir. Kvendraugur rekur hroðalega sögu sína af misnotkun og ofbeldi og niðursetningur sem var barinn og sveltur til dauðs tíu ára gamall sest á rúmstokk Magnúsar til að tala um arðrán og gerspillt vald sem gegnsýrir allt á landi hér:
„Það er óttinn sem límir það allt saman, óttinn sem stýrir, óttinn er samhengið. Og þar sem óttinn ræður er aldrei langt í fyrirlitninguna og litlir menn óttast upp á við og fyrirlíta niður á við og gera eins og þeim er sagt og herma eftir herrum sínum að ofan. Þeir læra af þeim hæstu herrum að hata sitt eigið fólk. Allt frá froðunni úr kjafti valdsins til barnings á þeim lægsta tala ég. Óttinn byrjar hjá þeim sem eiga landið, þaðan til æðstu embætta valds og verslunar og sótast þaðan yfir í okkur hin. Þeir óttast að vera ekki starfi sínu vaxnir gegn hærri herrum og traðka því sem mest þeir mega á bændum, ohoho, klapp vilja þeir á kollinn fyrir hvert traðk og hverja píning, leigur og tolla, skatta og gjöld, dálitla umbun fyrir hverja fyrirlitningu sem þeir sýna niður á við...“ (250).
Vor missjón!
Magnúsi er falið það verkefni að rannsaka mannlíf á Hornströndum og segir hátíðlega við upphaf siglingar til Íslands: „Vor missjón er missjón vísindanna er ekkert fær stöðvað“ (57). En brátt rekst hans lærdómur harkalega á raunveruleikann, teoría og praktík stangast á, vísindaleg latínuheiti, flokkun og tegundagreining leiða ekki til haldbærrar þekkingar né koma að gagni í lífsbaráttunni í harðbýlu landi. Háðulega meðferð í sögunni fær hin vísindalega greinandi hugsun þegar stórvaxin bein sem standa út út sjávarkambi eru álitin vera af risum sem talið var að hefðu verið á Íslandi til forna, þau eru sæmd latneska heitinu Gigantes og pakkað inn til að setja á safn í Köben en innfæddir vita að þau eru úr hval sem strandaði í fjörunni fyrir löngu. Eftir því sem lengra líður á ferðasöguna skarast kategóríurnar innra með embættismanninum sem efast æ meir um hlutverk sitt og tilgang: „Hvað átti hann með að ákveða hvar væri góð eða slæm lífsskilyrði? Einmitt sá sem tekur sér það bessaleyfi að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu, það er sá sem skilur ekki neitt, hvorki í manneskju né menningu“ (197).
Á maðurinn val?
Tvo aðstoðarmenn hefur Magnús með sér í ferðinni, Bárð Grímkelsson, hjáleigubónda úr Dölunum sem þjáist af hlandstíflu og Jón Grímsson sem hefur áður ferðast um landið í umboði Danakonungs til að kenna þjóð sinni kálgarðarækt en án árangurs, báðir eru málpípur innfæddra sem gefa lítið fyrir „vísendi“ og lærdóm Magnúsar Árelíusar enda kann hann ekkert á land og þjóð. En síðan er hann einn á ferð enda kominn svo langt frá mannabyggð að enginn hættir sér þangað. Þá þarf hann ekki lengur að strögla og sýnast fyrir aðstoðarmönnum sínum, persónan þroskast og breytist; fínu fötin kolast, hárkolla lærdómsmannsins verður mórauð (129) og hann allur svo móbrúnn að yfirbragði að margir tóku hann fyrir innlendan brennivínssölumann (175). Honum vitrast að kannski er hann sá fátæki en hið fáfróða og arma fólk ríkt af trú og sögum í sínum þrönga og endurtekningasama heimi. Var það hans eigin menning sem bar feigðina í sér en ekki þeirra sem hann átti að bjarga? Það molnar úr brothættri sjálfsmyndinni en vísindaferðin gæti enn snúist upp í sigurför hans sjálfs. En þá reynir á manninn, hefur hann frjálsan vilja, hefur hann val?
Loks kemst hann við illan leik á Strandir. Öndvert við bágborið ástand í sveitum á Vatnsnesi og víðar, eru Strandamenn hressir og hraustir. Þar drýpur smjör af stráum, þar eru kýr og veiðarfæri, postulín og sápa, enda skipta þeir við hollenskar duggur og hunsa þann kóng sem vill að þegnar hans séu þrælar. Svona gæti líf Íslendinga verið um land allt ef þeir fengju að ráða sér sjálfir.
Sumarið 1785
Sagan af svaðilför Magnúsar rennur áfram á kjarnyrtu alþýðumáli og í knúsuðum og embættisstíl, með hárfínni íroníu, listilega skrifuðum bréfum að hætti skriffinna 18. aldar og mögnuðum draugagangi. Lesandi sem fílar alvöru sögulegar skáldsögur fær heldur betur fyrir snúð sinn. Ferðamaðurinn kemur á bæi og lærir sitthvað, hann er á mærum menningarheima og öðlast aðra sýn á nýlenduþjóðina og ekki síður á sína eigin þjóð. Á endanum passar hann hvergi en honum tekst að kveða niður djöfla sína með kærleika sem hann vissi ekki að hann ætti til og Sesselja, hin mállausa sem sætt hefur óskiljanlegu ofbeldi, elskar hann óverðskuldað en það eru kaldhæðnisleg örlög rökfasta vísindamannsins að eiga allt sitt undir henni og hinum töfrum slungna lífslæk, tákns lífmagnsins og þeirrar auðlindar sem aldrei má framselja.
Sögumaður stendur frammi fyrir flóknu verkefni, hvaða veruleika á andi sögunnar að segja frá? (110). Hann stendur föstum fótum í fortíð og nútíð, í tungumálinu og þeim veruleika sem það speglar hverju sinni. Og hversu nákvæmlega á að lýsa ferð eins manns með beyg í brjósti á framandi slóðum sumarið 1785? „Eða hver var ekki með beyg í brjósti sumarið 1785?“ (174). Sögumaður þykist hafa afstöðu sagnaritara en leikur tveimur skjöldum, í síðustu köflunum talar hann um að ekki séu til fleiri heimildir fyrir þessari frásögn og ekki í boði að skálda einhverjar „rómankúnstir“ (286) þótt það flikkaði óneitanlega upp á söguna að segja frá konu sem grætur ofan í visinn blómvönd. En í Epilogus er hins vegar nóg af heimildum, m.a. einhverjar þykkar skýrslur og formleg bréf, og þar er píla til okkar sem nú lifum á Íslandi og virðumst ætla að selja það allt undir „bræðslur, olíuhreinsistöðvar, járnblendi-, súráls- og brennisteinsverksmiðjur og risaorkuver“ (292).
Fullkominn endir
Myndin sem dregin er upp af því sem hefði getað orðið ef danskt skrifræði hefði fengið sitt fram er ansi nöturleg og ætti að vera okkur til varnaðar á okkar viðsjárverðu tímum þegar stjórnvöld hafa margsinnis sýnt að þeim eru mislagðar hendur. Seinasta sagnabrotið, þegar tjaldið fellur við sögulok og maðurinn horfist í augu við eigin fordóma og hefur misst allt þrátt fyrir forréttindi sín, er ekki „verifíserað“ af sögumanninum en mikið er það fallegt og harmþrungið; fullkominn endir.