Vísbendingar eru um að kynslóðabil sé að myndast í málfari, segir Kristján Jóhann Jónsson, dósent í íslensku við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Eðlilegt sé að tungumál breytist en þarna þurfi að fylgjast vel með. Í viðtali á Morgunvakt Rásar eitt nefndi Kristján ýmsar áskoranir sem blasa við í íslenskukennslu og sagði mikilvægt að velja til lestrar bækur sem höfða til nemenda. Íslendingasögur veki frekar áhuga þeirra en nútímabókmenntir á aldur við foreldra þeirra.

Á árunum 2013 til 2016 var gerð rannsókn á stöðu íslenskunnar út frá ýmsum sjónarhornum í fimmtán grunnskólum og framhaldsskólum. Nú er komin út bók með niðurstöðunum. Kristján er annar ritstjóranna. Hann segir rannsóknina sýna að tungumálið stendur að mörgu leyti sterkara en búist var við. Fram undan séu þó miklar breytingar sem horfast verði í augu við.

Kristján telur meðal annars að ástandið sé slæmt hvað varðar kennslu innflytjenda eða fólks með íslensku sem annað mál. „Og það gildir líka um íslensk börn sem hafa verið á sínu málþroskaskeiði í útlöndum og detta svo inn í íslenskt skólakerfi. Við erum ansi klaufaleg finnst mér í að höndla það mál. Þar þarf að taka á og gera betur.“

Hvað varðar tæknimál og stafræna byltingu segir Kristján að þar fari nú fram mikilvæg vinna. „Og við erum þar eiginlega á síðasta snúningi því ef íslenskan gengur ekki í takt við tækniþróunina þá missir unga fólkið virðinguna fyrir henni og finnst hún ekki koma sér við. Það má ekki gerast.“

Þá séu dæmi um að ungu fólki finnist íslenska leiðinleg námsgrein. „Og það eru ýmis hættumerki í því að menn vilja ekki lesa bækur. Það eru líka hættumerki í því að það eru ekki valdar handa nemendum bækur sem eiga sérstaklega mikið erindi til þeirra. Það mætti mjög hrista upp í því að bókmenntaval í skólakerfinu er afskaplega kennaramiðað. Það þarf að sjá betur stöðu nemendanna, hvar menn ætla að hitta þá að máli um bókmenntir og lestur. Það kostar bókmenntafræðivinnu og meiri menntun hjá kennarastéttinni og það kostar ýmislegt annað. Það sem lagt er fyrir sem nútímabókmenntir er held ég um það bil þrjátíu árum eldra en nemendurnir og viðbrögð nemenda eru til dæmis þau að Íslendingasögur vekja meiri áhuga þeirra en bókmenntir á aldur við foreldra þeirra.“ Gera þurfi meira af því að tengja námsefni við kvikmyndir og fjölmiðlun. Þarna sé ævintýrabragurinn á miðaldabókmenntum að skila sér nokkuð vel. „Það er mikilvægt að fara yfir það hvað er gert í kennslunni og hvaða efni á möguleika inni í skólastofunni. Menn ættu kannski að horfa meira á nemandann sjálfan og á umræðu dagsins til að sjá hvar er hægt að byggja upp sameiginlegan grundvöll.“

Kristján segist ekki taka undir með þeim sem séu einna svartsýnastir á stöðu íslenskunnar. „En ég held að fram undan séu heilmiklar breytingar og við verðum að viðurkenna það og horfast í augu við hver staðan er hér og nú og til þess þurfum við að fylgjast miklu betur með en við gerum. Og fækka svolítið stórum staðhæfingum og sækja upplýsingar um stöðuna eins og hún er. Íslenskan stendur vel á meðan okkur er ekki sama um hana. Áhugaleysi er það versta sem við getum fengið upp. Þá vitum við að það er eitthvað mjög alvarlegt að gerast.“