Íslenskt vísindasamfélag er verulega vanfjármagnað og þeim vísindamönnum sem fá rannsóknarstyrki hefur hlutfallslega fækkað. Tvöfalda þyrfti ef ekki margfalda sjóðina, segir Erna Magnúsdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands og forseti Vísindafélags Íslendinga. Styrkirnir eru svo lágir að íslenskir vísindamenn erlendis flytja ekki heim eftir nám.

Atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi

Lagt var til, við umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi, að draga úr fjárveitingum til rannsóknarsjóðs Vísinda- og tækniráðs um tæpar 147 milljónir sem eru um 17%. Vísindamenn brugðust hart við og hófu undirskriftasöfnun og skrifuðu tæplega 1000 vísindamenn undir áskorun til alþingismanna. Við upphaf þriðju umræðu á Alþingi var svo hætt við niðurskurðinn. 
Það vakti athygli að í áskoruninni var meðal annars bent á það að þegar væri mikill atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi. Spegillinn hélt því á fund við Ernu til að ræða við hana um stöðu vísindarannsókna á Íslandi og atgervisflóttann.

„Við sjáum það svolítið að það eru jafnvel mjög færir íslenskir vísindamenn sem hafa verið að leita að tækifærum lengi til að koma til Íslands en treysta sér hreinlega ekki í þær aðstæður sem hér eru til vísindastarfa.  Þannig að það er ekki beint þannig að fólk sé að flýja land heldur er mjög mikið af hæfileikaríku fólki sem gæti verði hérna að starfa með okkur sem við erum hreinlega að missa af því að fá til Íslands. 

Aukin sókn í vísindasjóði 

Ástandið hafi þó batnað lítillega á síðasta áratug og samkeppnissjóðirnir stækkað en ennþá vantar mikið upp á. 

„Svo þó að það hafi verið bætt í samkeppnissjóðina þá eru styrkirnir þar ennþá lágir þannig að öndvegisstyrkur úr rannsóknarsjóði Vísinda- og tækniráðs sem er svona stærsti styrkurinn sem hægt er að fá á Íslandi hann er kannski á við verkefnasyrk í Bretlandi. Þannig að við störfum í mikið minni einingum og við gerum smærri verkefni hérna á Íslandi. Þannig að ef fólk er mjög metnaðargjarnt þá kannski hikar það við að koma til Íslands. Og þá meina ég kannski frekar metnaðarfullt ef fólk vill gera stóra og flotta hluti þá er það erfiðara hér.“

Öndvegisstyrkur á Íslandi er 45 milljónir á ári í 3 ár eða 135 milljónir. Með slíkan styrk er hægt að ráða nokkra doktorsnema eða nýdoktora til að vinna að stærra verkefni heldur en hægt er með verkefnastyrk sem er 15 milljónir.
Erna segir að hér á landi hafi verið hagvöxtur, menntuðum Íslendingum hafi fjölgað og vísindamönnum líka. Sókn í vísindasjóðina hefur aukist. 

Þannig að hlutfall vísindamanna sem fá styrk, þeim fækkar, hlutfallið lækkar. Þannig að þó að sömu upphæð hafi verið veitt úr sjóðunum þrjú ár í röð þá hefur hlutfallið farið úr 25% niður í 18%.“

Hætt við niðurskurð 

Nú stóð til að skera niður, var einhver skýring til á því og hvers vegna var hætt við? Skýringin var held ég bara þessi almenna aðhaldskrafa í kjölfarið á verri hagspá sem var á milli annarrar og þriðju umræðu fjárlaga. Ég held hreinlega að þeir sem ákváðu að skera niður í rannsóknarsjóð hafi ekki alveg áttað sig á áhrifunum af því hlutfallslega. Ég held að þetta hafi verið sirka 5% af sjóðnum sem átti að skera niður og það hljómar ekkert ofboðslega mikið en svo þegar vísindasamfélagið tók sig saman og útskýrði að þetta yrði þá þriðjungurinn af verkefnastyrkjum sem úthlutað yrðu á næsta ári af því það er alltaf úthlutað til þriggja ára þá áttuðu menn sig á því hvað þetta hefði slæmar afleiðingar fyrir vísindin á Íslandi. 

Upphæðin sem skera átti niður jafngilti tuttugu og einum árslaunum nýdoktora eða þrjátíu og fimm árslaunum doktorsnema. 

Evrópusambandið fjárfesti í íslensku samfélagi

Rannsóknir hér á landi eru mjög fjölbreyttar og hafa haft mikið vægi. Sem dæmi má nefna rannsókn á áfallasögu kvenna þar sem verið er að kanna hvaða áhrif áföll í lífinu hafa á heilsufar þeirra og hvernig konum vegnar almennt í lífinu. Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor er í forsvari fyrir rannsóknina.

„Og hún fékk til dæmis öndvegisstyrk fyrir nokkrum árum síðan sem leiddi svo til þess að hún gat byggt upp stærra verkefni og fékk einn af stærstu styrkjunum sem hægt er að fá í Evrópu til þess að halda þessu verkefni áfram hérna á Íslandi. Þannig að þá erum við í raun og veru að tala um fjárfestingu Evrópusambandsins á Íslandi sem eru þá peningar sem ekki þarf að borga til baka og þetta er fjárfesting í íslensku samfélagi. Við erum að búa til meiri þekkingu á okkar samsfélagi og hvernig við getum brugðist við áföllum á Íslandi. Það eru alls konar rannsóknir þarna líka. Bara í mínu umhverfi þá er fólk að rannsaka hvernig krabbameinsfrumur fjölga sér og ef við vitum þekkjum það þá getum við kannski frekar vitað hvernig má stöðva fjölgunina.   

Vannýtur mannauður

Erna segir mikilvægt að meira fé fáist í rannsóknir á Íslandi.

„Þetta er ótrúlegur mannauður sem við búum að. Þannig að það er bæði það að við gætum fengið til okkar bæði íslenska vísindamenn sem búa annars staðar og jafnvel bætt hérna inn í hóp okkar þeim sem aldrei hafa búið á Íslandi og gæti komið inn með sérfræðiþekkingu sem styrkir íslenskt samfélag. Og svo líka þá má eiginlega segja að við séum að vannýta þann mannauð sem býr nú þegar í íslensku vísindasamfélagi af því við gætum að verið að gera svo miklu stærri hluti ef íslensk vísindi væru fullfjármögnuð.  

Þyrfti að tvöfalda ef ekki margfalda sjóðina

Erna segir að sjóðirnir hafi stækkað en ekki nógu mikið.   

„Ég myndi segja sjálf að það þyrfti að allavega að tvöfalda þá ef ekki margfalda þá. Og ef við til dæmis skoðum markmið bara núna nýjustu stefnu stjórnvalda sem er þá stefna sem Vísinda- og tækniráð setur, þá ætlum við að ná fjármögnun háskólanna upp í það sem Norðurlöndin gera árið 2024 og ef við ætlum að gera það og á sama tíma sem var í stefnunni þar áður sem náðist ekki að fá sama hlutfall úr rannsóknarsjóðum inn í háskólana og til dæmis þekkist í Danmörku þá þyrfti jafnvel að fimm- til nífalda sjóðin. Þannig að það má færa rök fyrir því að sjóðirnir séu verulega undirfjármagnaðir. Þótt hafi verið bætt í þá undanfarið þá má gera betur.“

Rannsóknir auka hagvöxt

Erna segir að í Bandaríkjunum hafi menn reiknað út að meirihluti alls hagvaxtar frá því í seinna stríði sé kominn til vegna vísinda. 

„Og svo ef við ætlum að horfa bara á okkur sem litla eyju í norðurhafi sem er með lítið hagkerfi, að það er alltaf verið að tala um fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi sem þá kannski vilja fá peninga til baka - en til dæmis eins og dæmið með Unni Önnu sannar að við fjárfestum í hennar rannsóknum og fengum margfalt til baka fjármagn frá Evrópu. Þannig að fjárhagslega og efnahagslega séð þá getur það gengið við fáum þarna erlenda fjárfestingu í íslensku hugviti en síðan bara þá eflum við íslenskt samfélag með því að styrkja hugvit hér á Íslandi. Með því að styrkja vísindi þá styrkjum við íslenskt þekkingarsamfélag og höfum kannski betri tækifæri fyrir komandi kynslóðir.