Ekki er fylgst með starfsemi erlendra ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi eða skráð hve margir ferðamenn koma á þeirra vegum. Varaformaður Félags íslenskra leiðsögumanna vill skylda erlendar ferðaskrifstofur til að hafa íslenska leiðsögumenn með stórum hópum ferðamanna.

Ferðaskrifstofur með leyfi á Evrópska efnahagssvæðinu geta starfað hér á landi á grundvelli erlendra starfsleyfa. Hjá félagi íslenskra leiðsögumanna vilja menn að erlend fyrirtæki verði skylduð til að hafa innlenda leiðsögumenn með í för, sérstaklega á hálendinu og innan þjóðgarða. Slíkar reglur séu í gildi víða erlendis.

Þá vilja leiðsögumenn að starf þeirra verði gert löggilt. Þá væri hægt að reka menn úr félaginu og taka af þeim leyfi til að fara með ferðamenn um Ísland, segir Kent Lárus Björnsson, varaformaður Félags íslenskra leiðsögumanna.

Fleiri myndir hafa komið í ljós af Tetra-trukk ferðaskrifstofunnar Adventura. Þó stór hluti myndbanda af ferðum trukksins um Ísland hafði verið fjarlægður af heimasíðu ferðaskrifstofunnar síðdegis í dag. Á einu myndbandi sést þegar trukkurinn keyrir út af vaði í Krossá í Þórsmörk og festist í pytti.

Í september í fyrra lá svo nærri að illa færi þegar trukkurinn mætti jeppa í blindbeygju við Landmannalaugar. Ökumaður jeppans, sem dæmdur var í 100% rétti, segist hafa náð að forða lífi sínu með því að svipta bílnum upp í hlíðina og fleygja sér yfir í farþegasætið.