Á síðasta ári voru myndirnar Undir trénu og Ég man þig tekjahæstar í íslenskum kvikmyndahúsum. Hallgrímur Kristinsson formaður Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) segir að íslenskar kvikmyndir eigi sér oft lengra líf í kvikmyndahúsum en erlendar.
„Íslenskar myndir byrja oft rólega svo en svo fara þær af stað á afspurninni. Gott dæmi um það er Undir trénu, sem fór ekki af stað með neinni sprengingu, en svo spyrst hún út,“ segir Hallgrímur Kristinsson í samstarfi við Morgunútvarpið. „Þannig geta þær oft gengið mánuðum saman í bíó.“
Hallgrímur segir enga leið að staðfesta sögur um óheyrilegar vinsældir íslenskra mynda áður fyrr eins og Með allt á hreinu og Stella í Orlofi. „Þá var engin formleg leið til að halda utan um aðsóknartölurnar. En núna erum við með öflugan gagnagrunn sem heldur utan um þetta. Við höfum áreiðanlega tölur 20 ár aftur í tímann, en ekki lengra en það.“
Á síðustu fjórum árum hafa íslenskar kvikmyndir þrisvar trónað á toppnum yfir tekjuhæstu kvikmyndir ársins. Hallgrímur segir að íslenskum myndum hafi fjölgað mjög í seinni tíð og þess vegna fari margar þeirra framhjá fólki. Bíóaðsókn sé þó áfram góð. Halldór segir að bíóaðsókn hafi náð hámarki árið 2009 þegar bíógestir voru 1,7 milljón. „Síðan fór hún aðeins niður á við í kjölfarið, nokkur ár á eftir, en síðan fór hún að stíga aftur upp núna í kringum 2014. Tekjur stóðu í stað núna frá því á síðasta ári en aðsóknin fór niður um 3%.“
Hallgrímur segir komu Netflix inn á markaðinn því ekki hafa haft sjáanleg áhrif á aðsókn í kvikmyndahús, þó það sé ljóst að efnisveitan hafi mikil áhrif á sjónvarpsstöðvar og fjölmiðla. Samkvæmt rannsókn vegum FRÍSK frá því í mars á síðasta voru 44% íslenskra heimila með áskrift að Netflix. „Stutta sagan er sú að við reiknuðum út að 1,7 milljarður króna á ári sem áður fór til íslenskra fjölmiðla og fyrirtækja fór nú til Netflix.“