Laufey Guðjónsdóttir forstöðukona Kvikmyndamiðstöðvar Íslands segir að íslensk kvikmyndagerð sé komin rækilega á kortið. „Við þurfum ekki að banka eins stíft – það eru fleiri sem eru farnir að koma til okkar.“

Laufey segir að víða um lönd bíði fólk nánast eftir næstu íslensku kvikmynd. „Það er eiginlega að verða þannig. Þróunin hefur verið skemmtileg og í raun margföldun í gangi. Fleiri leikstjórar og myndir hafa vakið athygli og þannig erum við komin rækilega á kortið. Við þurfum að temja okkur ákveðna útsjónarsemi af því að við erum fá og smá en við leggjum aðaláherslu á að rækta góð sambönd við þá sem skrifa um myndir og hátíðarstjóra á helstu kvikmyndahátíðunum. Við miðum aðallega á þessar veigameiri hátíðir, Cannes, Toronto, Berlín og svo framvegis og reynum að halda góðu sambandi við dagskrárstjórana. Þetta hefur sem betur fer gengið vel.“

Eitt sinn upplifðu margir sem starfa að íslenskum listum að stuðningur við útflutning á þeim væri fyrst og fremst hugsaður til að selja eitthvað annað frá landinu, fisk eða ál eða eitthvað slíkt. Laufey segir að enn eimi eitthvað af þessari hugsun. „Ég held samt að hver Íslendingur sem fer út fyrir landsteinana upplifi að umheimurinn hefur tekið eftir íslenskum listum og menningu. Þannig að hughrifin og ímyndin er svo sannarlega mjög góð og jákvæð.“

Hátíðirnar mikilvægar

Verkefni Kvikmyndamiðstöðvar er þríþætt í aðalatriðum: „Það er að styrkja íslenska kvikmyndgerð, með handrita-, þróunar- og framleiðslustyrkjum fyrir leikið efni, stuttmyndir, sjónvarpsefni og heimildarmyndir. Síðan er það kynning erlendis og loks stuðningur við kvikmyndamenningu hér innanlands.“

Á vef Kvikmyndamiðstöðvar má sjá lista yfir það á hvaða hátíðum íslenskar myndir voru sýndar á síðasta ári og dreifingin kemur þó nokkuð á óvart. „Mikilvægustu hátíðirnar eru líka tengdar mörkuðum þar sem réttindasala fer fram og jafnvel fjármögnunarmessum þar sem næstu verkefni geta fengið hljómgrunn. Þetta virkar allt saman og þegar við fáum aðgang inn á stórar hátíðir þá fáum við líka betri aðgang að pressunni sem skiptir mjög miklu máli og þannig komumst við betur inn á radar.“

Menningarþátturinn Víðsjá á Rás 1 veltir fyrir sér í upphafi nýs árs kynningu á íslenskri list á erlendri grund. Fyrsti gesturinn í vikulegri umfjöllun um þessi mál var Laufey Guðjónsdóttir forstöðukona Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Viðtalið má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.