„Íslensk tunga berst fyrir lífi sínu, berst gegn stafrænni útrýmingu". Þetta er fyrirsögn á grein í Guardian þar sem blaðamaðurinn Jon Henley fjallar um þá ógn sem íslenskunni stafar af málaumhverfinu í tækni- og afþreyingarheiminum, einkum þeirri hlið hans sem snýr að tölvum, símum, sjónvarpi og annarri afþreyingu.

Stíðið tapast á endanum

Þar flæðir enskan yfir allt. Þrátt fyrir að Íslendingar reyni af fremsta megni að íslenska alþjóðleg tækniheiti, má segja að niðurstaða greinarinnar í Guardian sé sú að stríðið tapist á endanum, nema til komi mjög víðtækur stuðningur, fjárhagslegur og ekki síður andlegur stuðningur stjórnvalda, til marks um að þeim sé alvara í að viðhalda tungumálinu. Íslenska er ekki eina tungumálið sem á undir högg að sækja. Fyrir sex árum var gerð viðamikil tungumálarannsókn á vegum Evrópusambandsins og þá var talið að tuttugu og eitt tungumál í Evrópu væri í hættu. Íslenska var í raun ásamt nokkrum öðrum tungumálum talin í mestri hættu.

Spurning um tíma

Kristín M. Jóhannsdóttir lektor við háskólann á Akureyri, var í hópi sem sá um íslenska hlutann í rannsókninni og skilaði skýrslu sem hét "Íslensk tunga á stafrænni öld". „Ég held að við séum allavega í mikilli hættu. Staðan í dag er þannig að við eru ekki farin að tala svo mikið við tækin okkar. En þetta er í raun spurning um tíma. Það eru komin tæki sem fólk er farið að tala við. Við tölum nú þegar við símann okkar t.d. Ég get séð fyrir mér að bílar t.d. verði að miklu leyti rafstýrðir, þ.e. þeir sem eru ekki sjálfkeyrandi. Þegar þessi tækni er komin til staðar þá er allt of seint að reyna að íslenska hana. Við þurfum m.ö.o. að vinna núna þannig að við séum með tæknina tilbúna þegar þessi tæki fara að vera þannig að við þurfum að nota röddina meira til að stýra þeim" segir Kristín.

Raunveruleg hætta á að tungumálið deyi út

„Staðan er sú að ef við getum ekki notað íslenskuna á öllum sviðum í okkar daglega lífi þá er hún orðin að hluta til gagnslaus á ákveðnum sviðum. Það þýðir að hún er komin í ákveðna hættu. Þegar talað er um yfirvofandi dauða tungumáls, og við vitum að tungumál deyja, þá er einmitt þetta einn af þessum stóru þáttum sem talað er um. Þegar eitthvert annað tungumál hefur tekið algjörlega yfir ákveðið svið og i þessu tilfelli tæknina. Það er raunveruleg hætta og það þarf að gera eitthvað".

Enginn áhugi hjá tölvurisunum

Og nú er þetta að bresta á, þessi möguleiki að tala við tækin. Hver er áhuginn hjá t.a.m. erlendum stórfyrirtækjum fyrir því að það sé hægt að tala við þessi tæki á tungumálum sem fáir tala?

„Enginn, held ég að sé óhætt að segja. Það er dýrt að útbúa þessa tækni. Það kostar jafnmikið að búa til þessa tungutækni fyrir íslensku og það kostar fyrir þýsku eða frönsku. Þannig að fyrirtæki eins og Apple og fleiri stór fyrirtæki sjá engan hag í því að vera að búa til þessa tækni fyrir íslensku, þannig að við þurfum að gera það sjálf.

Ætlum við að halda í íslenskuna

Við erum með fólk sem er að mennta sig á þessum sviðum og er með þekkinguna nú þegar. Við erum byrjuð að setja peninga í þetta. Máltæknisjóður hefur nú úthlutað þrisvar sinnum og í hvert skipti hefur upphæðin hækkað sem úthlutað hefur verið. Þetta er byrjað, en það þarf svo miklu miklu meira. 40 milljónir króna eru há upphæð fyrir marga, en í svona samhengi dugar hún mjög skammt. Við þurfum að setjast niður og fara í þessa umræðu. Ætlum við að halda í íslenskuna?  Við höfum aldrei rætt það."
 

Þetta er svolítið yfirþyrmandi staða?
„Já. Hún er það. En það eru líka margir sem segja að fólk eins og ég og Eiríkur Rögnvaldsson og fleiri sem eru að tala um þetta séu með einhvern hræðsluáróður. Fólk hefur jafnvel verið að vísa til þess að Rasmus Rask varaði við því að danskan myndi taka yfir íslenskuna, ef ekkert hefði verið að gert hér áður fyrr. Og sumir benda á að af því að danskan tók ekki yfir íslenskuna þá sé engin hætta núna. En það eru bara allt aðrar aðstæður í dag. Við erum með enskuna í eyrunum daginn út og daginn inn. Við erum með lítil börn í leikskóla em eru farin að horfa það mikið á enskt efni að þau eru farin að tala einhvers konar ensku sín á milli. Þetta er alls staðar í kringum okkur og þetta varðar ekki bara máltæknina."

Eigum ekki að sætta okkur við að enskan ýti íslenskunni út

„Þetta er í rauninni þannig að við erum komin með svo mikla þolinmæði fyrir enskunni. Við erum farin að samþykkja að hún sé bara notuð hér og þar í daglegum samskiptum. Þetta er kannski ein af stærstu hættunum og er nátengd þessa stafræna máli. En við eigum ekki að sætta okkur við að enska ýti smám saman íslenskunni út."

Er hætta á því að sú kynslóð sem nú er að alast upp í þessari tækni að hún kunni hvorki  íslensku né ensku?
„Það veit það náttúrulega enginn nákvæmlega, en ég held að sú hætta hljóti alltaf að vera fyrir hendi. Ef unga fólkið er t.d. hætt að lesa íslensku. Það er reyndar deilt um það. Sumir segja að það lesi mjög mikið, en aðrir mjög lítið. En ef að íslenskan er ekki sterk og það er vitað að þú nærð aldrei enskunni sem móðurmáli bara með því að horfa á sjónvarp, eða leika þér í tölvu. Enskan er þá heldur ekki mjög sterk þó hún sé nógu góð til þess að horfa á sjónvarpsefnið og tala við útlendinga, þá er hún samt ekki eins og móðurmál. Þannig að sá möguleiki er fyrir hendi að það alist upp kynslóð sem er hvorki sérlega góð í íslensku, né sérlega góð í ensku."

Íslenskan er jafn rétt há enskunni

Hvað er til ráða, hvað viltu að gerist?
„Ætli það sé ekki þrennt sem þarf að gera. Við þurfum að fara í þessa umræðu í samfélaginu, ekki bara málfræðingar úti í bæ eða í háskólum. Við þurfum að fá þetta í almenna umræðu. Við þurfum að sýna fólki fram á það að íslenskan er rétt há enskunni. Sumir vilja meina að ekki sé hægt að segja hvað sem er á íslensku, en það sé hægt að segja hvað sem er á ensku. Það er alls ekkert rétt. Við þurfum að breyta þessu viðhorfi að enskan sé á einhvern hátt  betri en íslenskan. Við þurfum að setja pening í máltæknina. Við þurfum virkilega að leggja fé í það að búa til þessi tæki, að mennta fólk í máltækni, í málfræði og svo þurfum við að sjálfsögðu að endurskipuleggja menntakerfið á Íslandi, þannig að íslenskan haldi þeim sessi sem hún þarf að halda" segir Kristín M Jóhannsdóttir.