Ísland verður eitt viðkvæmasta vistkerfið þegar kemur að hlýnun jarðar. Sviðsstjóri grasafræði hjá Náttúrufræðistofnun segir að ef innfluttar tegundir nái fótfestu hér geti þær gjörbreytt flóru landsins og það sé verulegt áhyggjuefni. Aðalbláber gætu átt undir högg að sækja á komandi árum og lúpína, skógarkerfill og hin alræmda bjarnarkló sækja líklega í sig veðrið.
Plöntur láta undan nýjum tegundum
Spár gera ráð fyrir að loftslag hlýni hlutfallslega meira á norðurhveli á næstu áratugum og plöntur sem hafa aðlagast köldu loftslagi láti undan nýjum tegundum.
Samkvæmt rannsókn Pawels og Ewu Wasowicz og Harðar Kristinssonar hjá Náttúrufræðistofnun verður Ísland eitt viðkvæmasta vistkerfið þegar kemur að hlýnun jarðar.
Aðalbláberin gætu átt undir högg að sækja
Starri Heiðmarsson, sviðsstjóri í grasafræði, segir augljósu gróðurbreytingarnar vera aukinn vöxt. Ágengar plöntur eins og skógarkerfill, lúpína og hin alræmda bjarnarkló sæki í sig veðrið, og plöntur sem eru háðar því að vera huldnar snjó allan vetur, eins og aðalbláber, gætu átt undir högg að sækja.
„Og þetta eru breytingar sem við gætum séð öllu hraðar heldur en svona langvinnar breytingar sem taka lengri tíma,” segir hann.
Ferðamenn koma með nýjar plöntur
Aðfluttum plöntutegundum á Íslandi sé alltaf að fjölga, enda skilyrðin hér að breytast og ferðamönnum, sem koma óvart með fræ eða litla plöntuhluta, alltaf að fjölga.
„Með breyttu loftslagi þá getur meira en verið að tegundir sem við reiknum með í dag verði vandamál til framtíðar,” segir Starri.
Stjórnlausar breytingar áhyggjuefni
En hlýrra veður á Íslandi getur líka gert það að verkum að margt verði auðveldara. Til dæmis ræktun á framandi tegundum, eins og ávöxtum, grænmeti og korni. Af hverju þurfum við að hafa áhyggjur af þessu?
„Stjórnlausar breytingar er eitthvað sem við hljótum að hafa áhyggjur af. Og þar komum við inn á tegundir sem fluttar eru til landsins og þeim dreift úti í náttúrunni,” segir Starri. „Og ef þær ná fótfestu og geta tekið yfir og gjörbreytt íslenskum vistkerfum, þá er það stórkostleg breyting og við vitum ekki hvað við fáum í staðinn.”
Verðum ekki sjálfbær með eplatré
Það sé þó ástæðulaust að óttast tegundir sem ræktaðar eru hér á afmörkuðum svæðum.
„Við eigum ekki eftir að sjá sjálfssprottin eplatré hér út um allar trissur sem við getum lifað á hálft sumarið, þannig að ég hef ekki áhyggjur af því.”