Íslensk stjórnvöld styðja Juan Gauidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela. Hann lýsti sig réttmætan forseta landsins en Nicolas Maduro, forseti landsins, vísar því á bug. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að ástandið í Venesúela stappi við einræði.

„Þetta á sér náttúrulega langan aðdraganda. Við þekkjum aðstæður í Venesúela. Í þessu landi sem er mjög ríkt af auðlindum er mjög alvarlegt ástand. Réttkjörið þjóðþing hefur verið svipt völdum. Það stappar við einræði eins og ástandið er núna,“ segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherra vísaði til frests sem Evrópuríki hefðu gefið Maduro til að lýsa því yfir að nýjar kosningar yrðu haldnar. Hann varð ekki við því. „Þannig að við erum ásamt Norðurlöndunum og flestum þjóðum sem standa okkur næst að lýsa yfir stuðningi við Guaido þar til nýjar kosningar verða.“

Guðlaugur segist hafa haldið ríkisstjórn og utanríkismálanefnd Alþingis upplýstum. „Það er einhugur í ríkisstjórninni hvað þetta varðar.“

„Ég vonast bara til þess að ástandið lagist. Það er mjög mikilvægt að það verði haldnar kosningar sem fyrst og að réttkjörnir aðilar taki völdin í landinu,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði ástandið mjög alvarlegt, farsóttir og sjúkdóma í landi sem þrjár milljónir hefðu flúið. Hann sagði þó erfitt að spá fyrir um hvað gerist á næstu dögum.