Á Flatey á Mýrum rekur Skinney-Þinganes umfangsmikla repjuræktun. Repjuolían er nýtt sem olía á skipaflota fyrirtækisins, fóðurmjölið í nautgripi og stönglarnir undir dýrin og svo á akurinn sem lífrænn áburður.

 Jón Bernódusson, fagstjóri rannsóknar, þróunar og greiningar hjá Samgöngustofu, er einn þeirra sem að verkefninu koma. Hann var gestur Morgunútvarpsins á Rás tvö í morgun. Hann segir repjuolíuna lengi vel hafa verið notaða á skip en nú fyrst sé hún framleidd sem orkugjafi hér á landi. 

„Olían gengur síðan á skipavélar og aðrar vélar líka þannig að við erum þarna að fara af stað með verkefni þar sem að útgerðarfyrirtækið sjálft ræktar sína olíu eða orku.“

 Repjan er nýtt að fullu og er lífrænt ræktuð.

„Við erum að tala þarna um lífræna olíu sem er hægt bæði að nota til manneldis, þið getið sett það á salatið ykkar, og síðan getið þið sett það á vélina og keyrt af stað.“

Annar hluti lífsmassa orkujurtarinnar repju er fræin og hinn hlutinn stönglar. Fræjunum má breyta í fóðurmjöl með pressun og olíu. Stönglana má nýta í áburð.

„Það sem við erum að gera þarna er að fyrirtækið sjálft er að búa sér til sinn heildarpakka af orku, fóðri og áburði,  “ segir Jón. 

Fyrirtæki hér á landi þurfa aftur á móti að eiga viðeigandi tæki og búnað, og búa yfir kunnáttu til að verka hana, til að ráðast í framleiðslu repju. Kosturinn sem repjan hefur fram yfir aðra eldsneytisgjafa er sá að hægt er setja hana á skipin án þess að breyta þurfi búnaði þeirra. 

„Repjan getur komið inn strax á skipin. Ef við ætlum að setja rafmagn á skipin þá þurfum við að breyta búnaðinum, ef við ætlum að setja vetni á skipin þá þurfum við að breyta búnaðinum en repjan hún þarf enga breytingu. Við ætlum að byrja á þessu þannig að repjan kemur sem íblöndun í venjulegan dísel. Fyrst sem fimm prósent, svo tíu prósent, svo fimmtán og svo hækkum við það og lærum af því og nýtum þá reynslu sem kemur, “ segir Jón.