Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður samgöngunefndar Alþingis, segir Íslendinga ekki vera að finna upp hjólið með hugmyndum um veggjöld. Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir helsta áhyggjuefnið vera að veggjöld sem höfuðborgarbúar borga verði varið í vegaframkvæmdir einhvers staðar annars staðar.

Rætt var um  þau áform að leggja á veggjöld um allt land í Silfrinu í dag.  Til stóð að taka málið fyrir á þingi fyrir jól en samkomulag náðist milli allra flokka um að fresta því fram yfir áramót. 

Jón Gunnarsson, formaður samgöngunefndar, segir aðalatriðið með þessum hugmyndum að taka stærri og betri skref til að stemma stigu við umferðarslysum, geta greitt fólki leið og losað það úr eilífum töfum.  Hann segir Íslendinga ekki vera að finna upp hjólið heldur tíðkist veggjöld í flestum öðrum nágrannaríkjum. „Hugmyndin gengur út á að fækka umferðarslysum, greiða fyrir umferð, efla almenningssamgöngur og þetta er bara stórt skref.“ Hann sagði engar hugmyndir um að leggja á veggjöld innan borgarmarka heldur aðeins á jöðrunum.

Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segist hugmyndafræðilega sammála veggjöldum en það þurfi að skilgreina hvert markmið þeirra sé. Veggjöld eigi að nota til að bæta almenningssamgöngur og hafa vegakerfið öruggt og skilvirkt. „Markmiðið á ekki að vera að níutíu prósent keyri einir um í sínum bíl.“  Hún segir mesta stressið vera fólgið í því að veggjöldin fari sömu leið og gistináttagjaldið og að veggjöld höfuðborgarbúa verði notuð til að borga framkvæmdir einhvers staðar annars staðar. „Þannig hefur það verið með olíugjaldið og þannig hefur það verið með gistináttagjaldið og þannig viljum við ekki sjá það.“

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir hugmyndina um veggjöld hanga á útfærslunni.  Vegakerfið hafi að miklu leyti verið fjármagnað í gegnum bensíngjöld en það sé orkugjafi sem „við viljum sjá á útleið.“ Lykilatriði sé að finna bestu leiðina sem flestir geti sætt sig við. „Málamiðlun er ekki eitthvað neikvætt í þesu máli. Við þurfum að fara í umræðu hvernig hlutunum er best háttað. Ég sé ekki fyrir mér að þetta þurfi að vera átakamál heldur eitthvað sem þurfi að ganga í og finna umgjörð sem getur dugað til framtíðar.“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir hversu illa undirbúið málið hafi verið þegar það kom inn í þingið. Ríkisstjórnin eigi þó hrós skilið fyrir að bakka með það og sýna þannig afstöðu stjórnarandstöðunnar skilning.  Hann segir Pírata vilja gefa bæði almenningi og sveitarfélögum tækifæri til að skila inn umsögnum því þarna væri verið að taka „stóru ákvörðunina.“ Þá bendir hann  á að það eigi eftir að skoða hvort þyngstu ökutækin, sem hann segir eyða vegunum 11 þúsund meira en venjulegur fólksbíll, verði þá látnir borga 11 þúsundfalt meira. 

Hægt er að horfa á umræðuna alla í spilaranum hér að ofan.