„Það sem hefur komið mér á óvart er hvað fólk nú til dags hefur í raun og veru óljósar hugmyndir um þetta og ruglar saman: Urðum við sjálfstæð 1918 eða kom það 1944? Bíddu, hver er munurinn?" segir Gunnar Þór Bjarnason, höfundur bókarinnar „Hinir útvöldu.“

Sjálfur skýrir Gunnar Þór Bjarnason sína afstöðu afdráttarlaust í undirtitli bókarinnar: „Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918.“ Gunnar Þór var föstudagsgestur Morgunvaktarinnar - á deginum fyrir fullveldisafmælið 1. desember. 

„Þennan sama dag, 30. nóvember 1918, er Jón Magnússon, forsætisráðherra, úti í Kaupmannahöfn að skrifa undir lögin. Konungur er að staðfesta sambandslögin, sem hann gerir með því að undirrita tvær samhljóða útgáfur á íslensku og dönsku.“ En hér heima voru í undirbúningi látlaus hátíðarhöld fyrir framan Sthjórnarráðshúsið. Margir voru glaðir vegna þessa merka áfanga í sjálfstæðisbarátunni: Ísland var orðið sjálfstætt ríki í konungssambandi við Danmörk. En skuggi spönsku veikinnar hvíldi yfir Reykjavík. Stemmningin var ekki sérlega mikil: „Í raun og veru hafði fjarað dálítið undan sjálfstæðisbaráttunni árin á undan vegna þess að stríðsárin voru erfið, lífskjör versnuðu, það var kolaskortur. Í Reykjavík var varla kveikt á götuljósum á kvöldin. Það var bara niðamyrkur í Reykjavík haustið 1918. Þannig að þetta höfðu verið erfiðir tímar og kannski var ekki stemmning fyrir þessu. --- En Ísland varð sjálfstætt ríki 1918.“