Ný sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins sem kynnt var í síðustu viku felur í sér viðurkenningu á því að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna hafi gengið sér gjörsamlega til húðar.
Afleiðingar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins voru ofveiði, hnignun sjávarbyggða, og linnulaus taprekstur. Nú skulu spilin stokkuð upp á nýtt og gjörbreytt stefna tekin upp. Kvótakerfi þar sem kvótum verður úthlutað á grundvelli veipðireynslu, sjálfbærar veiðar, bann við brottkasti og flutningur ákvarðana frá Brussel til aðildarríkjanna eru megindrættirnir í hinu nýja kerfi.Daði Már Kristófersson dósent í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands segir að hið nýja kerfi sem stefnt er að taki mjög mið af fiskveiðistjórnunarkerfum Íslands og Noregs. Rætt er við Daða Má í Spegli dagsins.