Verði frumvarp landbúnaðarráðherra sem heimilar innflutning á ófrosnu kjöti að lögum, er það eins og að framkvæma tilraun á þjóðinni. Þetta segir Lance B. Price, bandarískur örverufræðingur og prófessor, sem hefur rannsakað sýklalyfjaónæmi á Íslandi. Hann segir Ísland í öfundsverðri stöðu.

Framsóknarflokkurinn stóð fyrir opnum fundi um innflutning á matvælum í kvöld. Þar tók til máls bandarískur örverufræðingur sem sérhæfir sig í rannsóknum á fjölónæmum bakteríum. Hann hefur komið hingað nokkrum sinnum síðastliðið eitt og hálft ár og segir það hafa komið sér á óvart hversu lágt hlutfall sýklalyfjaónæmis sé að finna í fólki þrátt fyrir það að sýklalyfjanotkun sé svipuð og annars staðar. „Við teljum að það fari saman við litla sýklalyfjanotkun í skepnuhaldi og að ekki sé leyfður innflutningur á hráu kjöti sem leiðir til lágrar tíðni ónæmis í fólki,“ segir Price.

Hann segir að frumvarp landbúnaðarráðherra sem heimilar innflutning á ófrosnu kjöti valdi sér áhyggjum, þrátt fyrir reglur á evrópska efnahagssvæðinu. „Þegar ég skoða notkun sýklalyfja í Evrópu þá er ljóst að reglunum er ekki beitt á sama hátt allsstaðar í Evrópu.“

Hann segir réttlætanlegt að samþykkja ekki innflutning á matvælum frá ákveðnum ríkjum. „Þegar ég athuga tíðni ónæmis á Spáni, Ítalíu og sumum öðrum löndum í suðri og svo í sumum austari löndum þá er ónæmi mjög mikið og sýklalyfjanotkun er mjög mikil. Og frá þessum svæðum hefði ég áhyggjur af kjötinnflutningi,“ segir Price. 

Hann segir Ísland í öfundsverðri stöðu og líkir breytingu á núgildandi fyrirkomulagi við tilraun á þjóðinni. „Vera má að það hafi ekki áhrif hjá ykkur. En ef það færi á hinn veginn, að hingað berist ónæmir sýklar sem valda ónæmi í sýklum hjá ykkur hjá mannfólkinu og þeir nái hér fótfestu, þá er það afleit tilraun og mjög erfitt að snúa þróuninni við.