Eyja listarinnar, Isle of art, er heiti á nýrri bók á ensku sem hverfist um eins konar ferðalag í gegnum íslenska samtímamyndlist. Það er þýska blaðakonan Sarah Schug sem á heiðurinn að bókinni, en ljósmyndarinn Pauline Mikó tekur myndir í hana. Í bókinni er rætt við fjölmarga myndlistarmenn, sýningarstjóra, listfræðinga og fólk sem rekur rými sem helguð eru samtímamyndlist víða um land.

Sarah Schug hefur unnið að ritun bókarinnar undanfarin misseri en hún starfar sem lausapenni fyrir ýmis menningartímarit í Belgíu þar sem hún býr, heldur meðal annars úti menningartímaritinu See you there sem fjallar um belgísku listasenuna á skemmtilegan hátt á netinu.

Eyja listarinnar iðar af lífi

„Áhugi minn á íslensku myndlistarsenunni kviknaði eftir ferðalögin mín hingað,“ segir Sarah sem nú er stödd hér á landi með nýju bókina sína. „Ég fór að rannsaka þessa senu hér á landi og langaði að lesa um hana en fann ekki neitt bitastætt, þannig að ég tók bara að mér að skrifa það. Hugmyndin kom til mín á nokkuð auðveldan og organískan máta en þegar ég fór að vinna að þessu komst ég að því að það eru margar áhugaverðar hliðar á þeirri miklu sköpun sem hér er í gangi. Þetta vatt því upp á sig. Mér fannst merkilegt að maður fær þá tilfinningu að hér sé myndlistin einhvern veginn úti um allt. Fólk er óhrætt við að prófa og sýna hlutina sína. Frelsið er mikið. Margir viðmælenda minna nefna að vegna þess hve listmarkaðurinn hér er lítill þá setji markaðurinn sköpuninni ekki eins strangar skorður og víða erlendis. Einn viðmælenda minna, listamaður sem hafði unnið að list sinni í Los Angeles fannst það í samanburði eins og hann væri að vinna í verksmiðju.“

En sjá viðmælendur Söruh líka þessa miklu sköpunargleði, verandi í henni miðri, eða eru þeir stoltir af henni?

Sarah nefnir að hún hafi verið hér í kringum opnun Marshall-hússins á sínum tíma. „Já, þá kom orðið stolt oft upp í mínum samræðum við þá sem tengdust myndlistarlífinu. Allir voru spenntir og stoltir. Fólk var á því að nú væri myndlistarlífið að verða fullvaxið í Reykjavík, starfsemin úti á Granda væri eitthvað í líkingu við það sem mætti finna í borgum erlendis, Stokkhólmi, Berlín eða víðar. Það vakti líka fyrir mér að koma þessari starfsemi betur á radar erlendis og benda á gæðin sem eru hér í gangi.“

Nú þekkir fólk íslenskt landslag og íslenska tónlist af heimsfrægu tónlistarfólki okkar, en getur myndlistin verið enn önnur stoð að mati Söruh Schug?

„Hér er allt til alls,“ segir Sarah sem er ekki í neinum vafa um að íslensk samtímamyndlist eigi fullt erindi við hinn stóra heim. „Það er engin ástæða til annars en að láta hinn breiða heim vita af lífinu í íslensku myndlistarsenunni. Margir sem ég ræddi við eru stoltir og bjartsýnir, ekki síst vegna þess að fagmennska hefur verið að aukast, galleríum að fjölga og svo framvegis. Á sama tíma hafa aðrir áhyggjur af því að grasrótarstarfsemin kunni að eiga erfitt uppdráttar. Húsnæði er dýrt og einkarekin rými lifa stutt, koma og fara. Þetta er fólk sem spyr sig hvort íslenska listasenan missi þar með sakleysi sitt og jafnvel djörfung. Nærri allir viðmælendur mínir nefndu þessi atriði, en það helgast kannski af því hvernig nýlistasenan var byggð upp hér, fyrst og fremst á einkaframtaki listamannanna sjálfra. Kerfið byggðist upp í grasrótinni og nú bíður fólk oft eftir næstu kynslóð, margir spyrja sig hvað þau muni gera.“

En hvað verður um þessa bók, Eyju listarinnar, hvert fer hún?

„Við prentuðum 500 stykki og erum farin að selja hana á vefsíðunni okkar isleofartbook.com. Safnabúðir hér á landi hafa sýnt henni áhuga og þess vegna er ég líka komin hingað núna. Svo höfum við fengið pantanir frá Englandi og Los Angeles.

En hvernig er það, núna þegar hún er búin að skrifa þessa bók og marínerast í íslensku listalífi svo lengi, er íslensk samtímamyndlist þá enn eins spennandi og hún virkaði fyrst í augum Söruh Schug?

„Já, ekki spurning,“ segir Sarah, spennt yfir því að halda áfram að pæla í íslenskri myndlist.“

Rætt var við Söruh í Víðsjá á Rás 1 en viðtalið má heyra hér að ofan.