Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að á næstu árum breytist Ísland í innflytjendaþjóð. Eftir tiltölulega skamman tíma verði útlendingar um fimmtungur þjóðarinnar. Fyrirsjáanlegur sé skortur á vinnuafli sem kalli á að hingað komi tvö til þrjú þúsund útlendingar til starfa á ári.

Það er óhætt að fullyrða að samsetning íslensku þjóðarinnar er að breytast og muni breytast mikið á næstu árum. Þetta á við um aldurssamsetninguna. Öldruðum eða þeim sem eru 70 ára og eldri á eftir að fjölga ört. Árgangar sem komu í heiminn eftir seinni heimsstyrjöldina eru nú að komast á þennan aldur. Þessir árgangar eru mjög svipaðir að stærð og þeir árgangar sem nú eru að fæðast og líka þeirra sem eru að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaði. 70 ára og eldri er nú um 10% þjóðarinnar en nú er því spáð að hlutfallið hækki hratt og verði komið í 20 prósent um 2050. Evrópubúar glíma við þennan vanda ef svo má komast að orði. Þar er því spáð útgjöld til heilbrigðismála aukist vegna aldraðra um 2,5 prósent af landsframleiðslu á næstu 15 árum. Sé þetta heimfært á Ísland jafngildir þetta árlega 40 til 60 milljarða króna aukningu ríkisútgjalda

2000 til 3000 manns á ári

Vegna fjölgunar aldraðar mun vinnufæru fólki hlutfallslega fækka. Og vegna mikils hagvaxtar á næstu árum er fyrirsjáanlegt að það mun skorta vinnuafl hér á Íslandi.

„Ef við horfum til tiltölulega hóflegs hagvaxtar á næstu árum, til dæmis 2,5%, þá er að óbreyttu ljóst að okkur muni vanta um 2000 manns inn á vinnumarkaðinn á ári. Það þýðir að við þurfum að flytja inn starfsfólk í stórum stíl miðað við það sem við höfum áður þekkt," segir Þorsteinn.


Ísland að breytast í innflytjendaþjóð

En þó að ellilífeyrisaldurinn verði hækkaður og menn ljúki skólagöngunni fyrr mun það ekki duga til. Skortur á vinnuafli er fyrirsjáanlegur. Þorsteinn Víglundsson sagði á blaðamannafundi SA í gær að við yrðum að búa okkur undir það að Ísland breytist í innflytjendaþjóð á skömmum tíma. Horfur væru á því að eftir ekki svo ýkja mörg ár yrði fimmtungur þjóðarinnar af erlendu bergi brotin. Þetta hlutfall var á síðasta ári um átta af hundraði.

„Það er alveg ljóst að ef við erum að fara að flytja inn tvö eða jafnvel þrjú þúsund manns á ári mun þetta hlutfall breytast mjög hratt. Gæti verið 15% strax árið 2030. Ég held að við verðum að horfa til þessa með jákvæðum hætti um hvernig við munum takast á við þetta. Hvernig við auðveldum fólki, sem kemur hingað, að setjast að. Og þá hvernig við þróum okkar innflytjendastefnu til að mæta þessum veruleika,“ segir Þorsteinn Víglundsson.