Internetið sem skynfæri

10.05.2017 - 16:45
Karl Ólafur Hallbjörnsson fjallar um skynfærin og internetið, en hann spyr: Er internetið framlenging af skynfærum okkar?

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar:

Það var um og skömmu eftir miðbik tuttugustu aldarinnar sem fyrstu forverar internetsins, ARPANET, NPL Network, Telenet og nokkur önnur kerfi fóru að gera vart um sig. Þessi kerfi voru bundin við fáa staði og gátu ekki miðlað miklu upplýsingamagni milli staða, en grunnhugmyndin lagði línurnar að mestu upplýsingabyltingu sem mannkyn hefur reynt til þessa: nánast algjörri rafrænni samtengingu fólks hvar sem það er á plánetunni. Það var árið 1989 sem breski tölvunarfræðingurinn Tim Berners-Lee fann upp veraldarvefinn, eða World-Wide-Web, og gjörbreytti landslagi heimsins.

Fjarlægðir þurrkuðust út með vefvæðingunni og innan 17 ára frá uppfinningu internetsins var það orðið lang-algengasta leiðin til að miðla upplýsingum — miðlun um 97% allra gagna fór fram í gegnum internetið árið 2007. Íslendingar eru til dæmis miklir vefnotendur. Við erum allflest tengd því, allflest skráð á samfélagsmiðla, allflest notandi tölvupóst. Við notum internetið í vinnunni, heima og á ferðalögum — hvert sem við förum fylgir það okkur eftir í formi fartölvu eða snjallsíma eða hvers annars þeirra tækja sem geta miðlað netinu.

Hugsið ykkur hvað myndi gerast ef að netinu myndi skyndilega slá út einn góðan veðurdag. Skammtímaáhrifin yrðu líklega vægast sagt vandkvæðasöm — allskyns grunnstoðakerfum er miðlað og viðhaldið með hjálp netsins á hverjum degi — en við gætum alveg komist af án þess, ekki satt? Við yrðum þá raunar bara færð fimmtíu ár aftur í tímann eða svo, upplýsingamiðlunarlega séð, og þyrftum að halda áfram að reiða okkur á símtækin okkar eða faxvélarnar. Mér er þó spurn að því hvort við gætum sætt okkur við slíka afturför.

Myndi vísindafólk ekki kappkosta við að reyna að koma upp einhverju veflíki, einhverju sambærilegu vefnum? Ég gæti vel ímyndað mér að mannkynið sé orðið háð þessu upplýsingaflæðisæði. Spurningin sem ég vil spyrja í pistli dagsins er því eftirfarandi: hvernig getum við hugsað um internetið, að því leyti sem það er tæki — en jafnframt að því leyti sem það er orðið svona veigamikill hluti samfélags okkar? Hvað er internetið? Er það bara verkfæri, eins og hamar eða töng eða sjónauki, eða höfum við tvinnað eitthvað meira af okkur sjálfum við það, gefið af okkur inn í verkfærið eins og verkfærið gaf okkur af sér?

Hefjum vangaveltuna á því að spyrja þess hvað það sé að vera verkfæri. Eins og ég sagði áður eru hamrar, tangir og sjónaukar verkfæri — þau gera okkur auðveldar fyrir með að framkvæma vilja okkar í heimi efnisins, brúa bilið milli hugmynda hyggjuvitsins og framkvæmda brothætta kjötlíkama okkar. Sum verkfæri gefa einhverja mynd af því hver var að nota þau af afurðunum sem þau skilja eftir sig. Járnsmiður hamrar járnið af sinni bestu færni, og sé þessi smíðafærni metin milli járnsmiða má í mörgum tilfellum greina glöggt hver smíðaði hvað, þótt með sama hamri hafi verið. Að sama leyti myndi penni, sem við notum til þess að efnisbinda tungumál okkar yfir lengri tíma en í stuttlifðum hljóðbylgjum, skilja ýmsar vísbendingar eftir um persónuleika rithöfundarins — hvort sem er í orðaforða hans, rithönd eða fleiru.
 

Hins vegar eru önnur verkfæri, eins og sjónaukinn, sem skilja ekki mikið eftir sig eins og hamarinn eða penninn. Þau veita okkur upplýsingar en þær eru, þar til við tökum við þeim í það minnsta, óháðar því hver við sem einstakar persónur erum. Við óbreyttar aðstæður sýnir sjónauki tveimur mismunandi persónum sömu hráu gögnin, þótt við getum svo verið með mismunandi augu til þess að túlka þau eða heilastöðvar til að vinna úr þeim. Munurinn á þessum tveimur flokkum hlýtur að vera sá að annan þeirra, þann fyrri, notum við til að snerta heiminn, og gerum það óhjákvæmilega á okkar einstaka hátt, meðan að seinni flokk verkfæranna notum við til þess að láta heiminn snerta okkur, og það gerist eiginlega óháð því hver við erum eða hvað við höfum lifað.

Í hvaða flokk fellur internetið? Hvort heyrir það undir flokk snertiverkfæra eða skynverkfæra? Við notum það til þess að snerta heiminn okkar, en jafnframt til þess að láta heiminn snerta okkur. Kannski er til þriðja kategórían — sú sem er bæði mótandi huglægt og hrífandi hlutlægt. Kannski er internetið gróf samblanda af hluthuglægu veruleikalíki, hvort í senn mótað af okkur og mótandi fyrir okkur. Kannski er internetið formgerving þess sem hefur verið kallað hið mannlega ástand, hlutlægur samtvinningur sammannlegrar og huglægrar heildar.

Kannski er internetið orðið skynfæri í sjálfu sér — hið sjötta, rétt eins og í samnefndri kvikmynd með Bruce Willis, og líkt unga stráknum í myndinni fáum við, notendur vefsins, séð eitthvað yfirnáttúrulegt, þótt ekki sé um dautt fólk að ræða.

Hvað er það þá, sem við sjáum á netinu? Er það mannkynið sjálft í öllum sínum umbrotum, ófullkomnunum, vandkvæðum og erfiðleikum? Er það þroskasaga okkar sem tegundar, skráð á ljósvakann um allar aldir? Er það við sjálf? Það gæti vel verið að við sjáum allt þetta og meira til, eða ekkert af þessu. Ég er ekki viss. Þó þykist ég geta sagt með nokkurri vissu að þetta internet sem við notum dagsdaglega sé orðinn órjúfanlegur hluti sjálfsmyndar okkar. Og ég meina ekki bara að því leyti sem við erum notendur samfélagsmiðla. Að öllu leyti, meina ég.

Við erum vön þessum ljóshröðu samskiptum. Þau móta heimsmynd okkar á gífurlega róttækan hátt. Allt er innan seilingar, allt er örskotsstund í burtu. Besserwisserinn dó með tilkomu internetsins — og Gúgglarinn tók við af honum. Stór meirihluti staðreyndaágreinings er leystur með raddskipun um að Siri skyldi gúgga hitt eða þetta, eða uppflettingu á Wikipedia — síðu sem við treystum kannski óhóflega á stundum. Mín skoðun er farin að verða sú, þótt breyst gæti, að internetið sé jafnvel orðið svo samtengt okkur að bráðum fari það að líkjast aukaverðu skynfæri eða líffæri — huglægu líffæri sem við gerum alltaf ráð fyrir og síum raunveruleikann í gegnum.

Sem slíkt myndar það nánast beina tengingu við annað fólk. Internetið er stafræn tenging milli huga, sívirk og gagnkvæm milli allra mögulegra virkra notenda. Með því að tengjast internetinu erum við að tengjast mannleikanum — eða einhverri mynd hans, í það minnsta. Kannski er ég samt bara að fabúlera. Kannski hefur internetið nákvæmlega engin áhrif á gjánna sem aðskilur okkur, og stendur sig aðeins vel við að mynda sjónhverfingu um að við séum öll nánari vegna þess hve auðvelt og hraðvirkt internetið er. Kannski er það að gera meiri skaða en gagn. Kannski er ég alveg úti á þekju.

Sýndarraunveruleikinn sem mun koma með næstu áratugum mun sjá til þess að þessi taug, römm sem hún er, verði enn sterkari — að internetið verði kannski yfirfært, ef svo má að orði komast, á hin skynfærin. Líkt og í skáldverki William Gibson, Neuromancer, myndi sýndarveruleiki skapa internetið fyrir okkur í tíma og rúmi, hljóði, mynd, lykt og skynjun, að endingu hjúpandi raunveruleikann með aukalagi af þessu skynsviði. Hvað verður þá raunverulegt og hvað verður eftirlíking?

Ef til vill verður framtíðin  eins og franski heimspekingurinn Jean Baudrillard spáði fyrir um — og ofurraunveruleikinn verður það eina sem eftir stendur. Hver veit? Kannski munum við, eins og Haley Joel Osment í Sixth Sense, verða fullfær um að sjá dáið fólk þegar hugmynd internetsins verður leidd til lykta í straumi tímans. Algrímskar endurbyggingar af vefnotendum út frá gögnum þeirra geta birst okkur sem vélrænar vofur þess sem við skildum eftir okkur, arfleifð okkar á upplýsingasviðinu. Við verðum bara að vona að við komumst ekki að því í miðju samtali við einhvern að eftir allt saman vorum það við sem vorum dáin.

Jóhannes Ólafsson
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi