Hans Blix fyrrverandi yfirmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak segir innrásina 2003 hafa verið brot gegn þjóðarétti og byggst á fölsuðum forsendum.
Innrásin í Írak fyrir tíu árum var án efa ólögleg, brot gegn þjóðaréttinum. Það segir Hans Blix, fyrirverandi yfirmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak. Þess utan segir hann að gögn sem nota átti til að réttlæta innrásina hafi reynst vera fölsuð Spegillinn sló á þráðinn til Hans Blix sem nú er eftirlaunamaður í Svíþjóð. Samkvæmt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna hafa þjóðir heims rétt til þess að grípa til vopna til að verjast hernaðarárás. Það skilyrði var ekki fyrir hendi þegar ráðist var á Írak tvö þúsund og þrjú. Írak hafði þá ekki ráðist á annað ríki og var lamað eftir tíu ára viðskiptabann. Hernaðarmáttur landsins var hverfandi. Eina leiðin til að gera löglega árás á Írak hefði verið ef Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefði samþykkt hana, sem eina stofnun alþjóðasamfélagsins sem hefur slíkt vald, en það gerði Öryggisráðið ekki. Meirihluti Öryggisráðsins var andvígur innrásinni og vildi án efa að vopnaeftirlitið fengi meiri tíma, því að við sem sáum um það eftirlit höfðum heimsótt eina sjö hundruð staði í Írak og engin gjöreyðingarvopn fundið, segir Blix. Það að blóðugur harðstjóri hafi fallið af valdastóli er heldur ekki rök fyrir réttmæti innrásarinnar. Margir Írakar voru þeirri stundu fegnastir þegar Saddam féll en þeir fengu í staðinn tíu ára stjórnleysi. Hundrað til hundrað og fimmtíu þúsund almennir borgarar hafa látið lífið frá innrásinni, en enn berast fregnir af fjöldamorðum þar. Og þá verður maður að spyrja. Var það það sem írakska þjóðin vildi, segir Hans Blix.