Í þriðja hluta rannsóknarferðalags Tómasar Ævars Ólafssonar um manneskjuna sem línur, svið og þéttleika heimsækir hann kirkju og finnur líffæravélar.


Tómas Ævar Ólafsson skrifar:

Efsti hálsliður okkar nefnist banakringla en á erlendum málum er sá liður gjarnan kenndur við gríska guðinn Atlas sem hafði það mikilvæga hlutverk að halda uppi himninum. Banakringlan, eða Atlas-kringlan, hefur svipað hlutverk í mannslíkamanum. Hún heldur uppi höfðinu sem er, eins og skáldið sagði, „nokkuð þungt.“ Hásinar okkar eru einnig kenndar við stríðskappann Akkilles sem var nánast óhöggvanlegur, fyrir utan annan hælinn. Lithimna augna okkar er kennd við grísku regnbogagyðjuna Írisi sem einnig var sendiboði guðanna. Ekki má gleyma barkakýlinu eða Adamseplinu sem rekur nafn sitt til fyrstu manneskjunnar sem sköpuð var í Guðs mynd. Lítill hnúður sem getur myndast á jaðri eyrans er kenndur við vísindamanninn Charles Darwin. Slagæðahringur hvelaheila er oft nefndur eftir lækninum Thomas Willis. Inni í okkur eru guðir. Inni í okkur er fólk. Inni í okkur eru menningarheimar.

Línur, svið og þéttleiki

Síðastliðnar vikur hef ég verið á ferðalagi. Samferða mér í gegnum bók sína, Flights, er rithöfundurinn og aðgerðasinninn Olga Tokarzcuk. Hún hefur lýst fyrir mér aðferð sinni til að skilja manneskjuna eftir línum, sviðum og þéttleika. Í síðustu tveimur pistlum höfum við beitt henni á höfuðlag portúgalska raðmorðingjans Diogo Alves og á hjarta mannsins. Gervivísindamenn höfuðlagsfræðinnar töldu sig geta kortlagt illmenni með því að draga línur í gegnum heilann, skipta honum upp í mörg mismunandi svið og mæla síðan þéttleika þeirra sviða. Ef sviðið á bak við eyrað hafði mikinn þéttleika var líklegt að manneskjan væri átakahneigð, spillingarglöð og héldi mörg leyndarmál. Líffræðingar nútímans telja sig geta skilið hjarta mannsins með því að skera það í sundur með hníf. Draga þannig línur í gegnum það og skoða þéttleika þeirra sviða, þ.e. hólfa og æða, sem vöðvinn hefur að geyma. Þetta er aðferðin. Svona öðlumst við skilning á manneskjunni sem og óreiðukenndum veruleika okkar.

Í dag ætlum við að skoða líf manneskjunnar frá línum, sviðum og þéttleika í gegnum enn eina fræðigreinina. Við ætlum að reyna að finna hið guðlega innra með okkur eða allavega að velta vöngum yfir því hvort framlengja megi lífið innra með okkur fram eftir öldum og jafnvel til hinnar margblessuðu eilífðar.

Kíkt í kirkju

Sussararnir þagga niður í okkur ferðamönnunum. Við muldruðum aðeins of hátt um listaverkið sem við stöndum frammi fyrir. Við erum stödd í Sansevero-kapellunni í Napólí og þar liggur heimsfræg stytta. Kristur undir slæðunni. Þetta er tæplega 300 ára marmarastytta af frelsaranum í raunstærð. Þarna liggur hann, að því er virðist látinn, eftir krossfestinguna. Það er friður yfir andlitinu. Þyrnikórónan og naglarnir liggja við fætur hans en sárin eru sýnileg á höndum og fótum. En það sem gerir þessa styttu einstaka og í raun að ótrúlegu afreki er slæðan sem liggur yfir líkinu. Þessi þunni klútur er úr sama marmara. Listamaðurinn, Giuseppe Sanmartino, hefur greinilega hoggið út þessa mannsmynd og slæðuna sem liggur yfir henni sem heild og hann hefur gert það af svo mikilli nákvæmni að útstæðar æðar og sár Krists eru sýnileg í gegnum marmaraslæðuna.

Lengi vel var talið að listamaðurinn hefði aðeins hoggið út Krist sjálfan en síðan hefði eigandi Kapellunnar, prinsinn Raimondo di Sangro, lagt stóran klút yfir styttuna og með þekkingu sinni á gullgerðarlist breytt klútnum í marmara. Það var sem sagt talið að slæðan sem liggur ofan á Kristsstyttunni hafi verið gerð að marmara með brögðum. Fólki fannst það hreinlega of ótrúlegt að hægt væri að höggva slíkt meistaraverk út. 

En þessi stytta er ekki ástæða heimsóknar okkar í þessa kapellu. Við komum til að sjá allt aðra gripi. Í kjallara byggingarinnar má finna annars konar styttur. Styttur úr mannsbeinum. Styttur úr járni, vaxi og silki. Hinar svokölluðu Líffæravélar. 

Líffæravélarnar

Þegar gengið er út úr aðalrýminu tekur við lítið rými sem hýsir Líffæravélarnar. Þetta eru tvær beinagrindur frá 18. öld umvafðar dökkum vírum sem líkja eftir æðakerfinu. Þær eru í upplýstum glerbúrum og taka á móti milljónum gesta ár hvert. Önnur beinagrindin er af fullorðnum karlmanni, líklega fanga, en hin af óléttri konu, sem talið er að hafi dáið við barnsfarir, og merkilegt nokk þá var einnig gerð líffæravél af látnu barni konunnar en því var stolið og hefur ekki komið í leitirnar svo árum skiptir. 

Þessi einkennilegu fyrirbæri voru pöntuð af fyrrnefndum prins Raimondo di Sangro og sett saman af líffærafræðingnum Guiseppe Salerno. Þau voru ætluð til kennslu og skilnings á æðakerfi mannsins en nútímarannsóknir hafa leitt í ljós að þau séu mögulega nógu nákvæm til að í þeim virki líf. Í besta falli væri það samt nokkuð aðgerðarlaust líf. En líkt og með Krist undir slæðunni fóru flökkusögur á kreik á sínum tíma. Talið var að di Sangro hefði sprautað eigin þegna með kvikasilfri eða álíka frumefni og breytt þannig lifandi manneskju í málmkennda furðuveru ætlaða til kennslu í líffræði. En hver sem sagan á bak við þessar líffæravélar er þá má sjá þarna enn eitt dæmið um línur, svið og þéttingu. 

Blóðrásin

Svið þessarar uppfinningar er ljóslega blóðrásin. Svið sem tengist öllum öðrum sviðum líkamans. Línurnar eru hér alltumlykjandi. Þær þræða sig í kringum beinin og út að þeim jaðri þar sem skinnið ætti að vera. En þær hafa mismunandi þéttingu. Sumar línurnar, eða æðarnar, eru hnausþykkar og liggja meðfram lærum og upp með bakinu og inn í hjartað og upp í heila, aðrar æðar eru mjórri og hringa sig um allan líkamann en einnig er hersing af mjög smágerðum æðum sem liggja eiginlega á beinunum sjálfum og þekja andlit hauskúpunnar. Slagæðar, háræðar og bláæðar. Allt prjónað úr vírum utan á beinagrind. 

En hvers vegna ætti gullgerðarlistamaður á borð við di Sangro að vilja eignast þessar líffæravélar? Ekki breytir hann þeim í eðalmálma þannig að við verðum eiginlega að velta fyrir okkur hinni hlið gullgerðarlistarinnar, hinu eilífa lífi. Gætu þessar vélar verið skrefið í átt að því að lifa endalaust?  

Það er augljóst mál að æðar úr vírum endast lengur en þessar venjulegu sem þekja líkamann. Ef við gætum einhvern veginn skipt okkar æðum út fyrir endingargóða víra væri kannski hægt að teygja lífið aðeins lengra. Síðan myndu kannski taugarnar fylgja sem títaníum-þræðir. Síðan heilu gervilíffærin. Við erum nefnilega búin að merkja öll þessi líffæri, draga utan um þau línur, skipta þeim í hluta eða svið, mæla þéttingu þeirra og við erum búinn að nefna hvern hluta fyrir sig. Við erum einnig búin að draga gervivísindi frá raunvísindum.  

Þrívíddarprentuð líffæri

Líffærin eru nefnilega bara partar í vél. Líffæravél. Og framleiðslan er í augsýn. Nú á dögunum leit til að mynda fyrsta þrívíddarprentaða hjartað dagsins ljós þannig að kannski munum við einn daginn geta prentað út atlaskringlur, hásinar, adamsepli, lithimnur, darwinhnúða og willis-slagæðahringi. Skipt þeim inn og út úr okkur sjálfum. Inn og út úr þeim líffæravélum sem við erum. Þeim eilífðarvélum sem við munum verða. Búnar til úr framleiddum líffærum, virkjuðum Guðum, hálf-gleymdum vísindamönnum, menningarminnum og þessum blessaða lífsneista, sem við eigum, reyndar, enn eftir að draga inn í jöfnuna okkar og aðskilja í línur, svið og þéttleika. 

En þar ströndum við. Línur, svið og þéttleikar ná bara yfir það sem er mælanlegt. Við fáum kannski botnað eitthvað í líkamanum og heilanum og hjartanu. En lífið sjálft leggur alltaf á flótta undan slíkum skilningsþorsta. Það tekur alltaf fram úr mælitækjunum og skýringarmyndunum. Og þótt við teygjum líf okkar til eilífðar þá þýðir það samt ekki að við skiljum lífið.