Atvinnuþátttaka meðal innflytjenda á Íslandi er meiri en á meðal Íslendinga. Þetta er einstakt á Norðurlöndunum.
Innflytjendur eru viðlíka margir hlutfallslega hér á landi og í Danmörku og Noregi, en þeir koma hingað nær eingöngu í atvinnuleit. Dvalarleyfi af mannúðarástæðum eru hverfandi fá. Þetta kom fram í máli norsku sérfræðinganna Anne Britt Djuve og Anne Skevik Grödem, sem héldu í gær erindi um innflytjendamál á opnum fundi Alþýðusambands Íslands og Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Djuve og Grödem kynntu drög að skýrslu um sinni um stöðu innflytjendamála á Norðurlöndunum. Skýrslan er hluti rannsóknarverkefnis sem SAMAK - samtök alþýðusambanda og jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndunum - standa fyrir. Í skýrslunni er reynt að rekja hvernig fólksflutningar milli landa hafa þróast og hvernig reynt hefur verið að stuðla að þátttöku innflytjenda í þeim samfélögum sem þeir flytjast til. Þá er atvinnuþátttaka innflytjenda skoðuð sem og umræður um innflytjendamál í hverju landi fyrir sig. Þær Anne Britt Djuve Anne Skevik Grødem starfa báðar sem rannsakendur hjá Fafo, rannsóknarstofnun sem fjármögnuð er af landssambandi stéttarfélaga í Noregi, ýmsum fyrirtækjum og sambandi sveitarfélaga. Rannsókn þeirra náði til Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.
Grundvallarbreyting á fólksflutningum
Djuve og Grödem segja að á síðustu áratugum hafi það gjörbreyst hverjir flytji til Norðurlandanna. Í Svíþjóð hefur innflytjendum til að mynda fjölgað um 70% frá árinu 1990. Þá voru innflytjendur aðallega frá Norðurlöndunum. En nú eru Írakar næst fjölmennasti hópur innflytjenda í Svíþjóð, næst á eftir Finnum. Í Noregi komu innflytjendur áður aðallega frá Svíþjóð, Danmörku og Pakistan. En nú eru langflestir frá Póllandi. Þá eru Litháar nýr og fjölmennur hópur innflytjenda til Noregs. Þetta endurspeglar grundvallarbreytingu í innflytjendamálum í Noregi. Innflytjendur koma nú miklu frekar frá Evrópusambandsríkjum en áður og flytja þangað fyrst og fremst í atvinnuleit.
Svíar fjárlslyndir en talsverður rasismi í Finnlandi
Þær Djuve og Grödem greindu viðhorf til innflytjendamála í löndunum; hvaða vandamál fólk sæi fyrst og fremst við fólksflutninga til landsins. Í Svíþjóð, þar sem hlutfall innflytjenda er hæst á Norðurlöndunum, hafa menn aðallega áhyggjur af því hvort fólki takist að aðlagast samfélaginu og verða virkir borgarar. Anne Britt Djuve segir að í Danmörku sé aftur á móti frekar rætt um peninga. Um efnahagsleg áhrif af aðflutningi fólks og sérstaklega því hvernig innflytjendur noti, eða jafnvel misnoti velferðarkerfið. Djuve og Grödem segja að Danmörk sé þó það land á Norðurlöndunum, þar sem ströngustu reglur gilda um bæði aðflutning fólks og um aðlögun þess að samfélaginu. Djuve segir að viðhorf sumra Dana hafi breyst eftir fjármalakreppuna, bæði viðhorf Dana til innflytjenda sjálfra og viðhorf til aðgangs þeirra að velferðarkerfinu. Stærri hluti Dana lýsti sig nú andsnúinn því að innflytjendur njóti sama aðgangs að velferðarkerfinu og fólk fætt í Danmörku, segir Djuve. Í Noregi hefur fólk áhyggjur af því að straumur innflytjenda til landsins leiði til lægri launa, brota á kjarasamningum og þess að fólk svindli á velferðarkerfinu. Í Finnlandi er lægst hlutfall innflytjenda af þeim löndum sem skoðuð voru. Þrátt fyrir það - eða kannski einmitt vegna þess, þá er veruleg andúð á innflytendum í Finnlandi. Hún virðist talsvert meiri en annars staðar á Norðurlöndunum. Í kynningu þeirra kom fram að um helmingur Finna telji mikilvægt að vernda finnska menningu fyrir alþjóðavæðingu. Um 66% Finna telji að Finnland sé rasískt land og um 14% finna segist sjálfir vera rasistar.
Lítil umræða á Íslandi
Þegar kemur að Íslandi, sögðust þær ekki vissar um hvað einkenndi umræðu um innflytjendur á Íslandi. Á glærum var einfaldlega spurningamerki þegar kom að þessum dálk á Íslandi. en þrátt fyrir það er mikið af innflytjendum á Íslandi. Um 9% landsmanna eru innflytjendur, samkvæmt tölum þeirra Djuve og Grödem. Örlítið meira en í Danmörku, svipað og í Noregi. Á Íslandi er hlutfall innflytjenda mun hærra en í Finnlandi.
Innflytjendur vinna meira en Íslendingar
Það einkennir þó aðflutning fólks til Íslands, að nær allir sem hingað flytjast, gera það í atvinnuleit. Og þar eru Pólverjar langfjölmennastir. Atvinnuþátttaka meðal innflytjenda er meiri meðal innflytjenda á Íslandi en meðal þeirra sem eru hér bornir og barnfæddir. Þetta er einstakt meðal Norðurlandanna. Til samanburðar má nefna að í Svíþjóð er atvinnuleysi meðal Svía 6,4%; meðal íbúa EES-landa: 7,8%; en 16% meðal allra erlendra ríkisborgara; meira en tvöfalt meira en meðal innfæddra. Þá eru ákveðnir hópar í samfélaginu í verri stöðu en aðrir. Í Danmörku og Noregi eiga konur frá Asíu, og karlar og konur frá Afríku, sérlega erfitt með komast út á vinnumarkaðinn. Um helmings atvinnuleysi er meðal fólk í þessum hópum.
Örfáir hælisleitendur á Íslandi
Djuve og Grödem segja að hér á Íslandi sé ekki að finna þær áskoranir sem mörg önnur lönd standa frammi fyrir vegna þess að fólk flyst til landanna af mannúðarástæðum. Raunar kom fram að mjög fáir hafi sótt um hæli hér á landi. Og enn færri fengið hæli, sé miðað við önnur Norðurlönd. Anne Skevik Grødem notaði orðið „tiny" um hópinn. Hann væri örsmár. Aðeins um 600 hafi sótt um hæli sem flóttamenn á Íslandi á heilum áratug - 2000 til 2009. Grödem segir þetta mjög lítið. Líklega séu stundum fleiri umsóknir um flóttamannahæli í Noregi á einni viku.