„Ég get talið á fingrum annarrar handar þá einstaklinga sem hafa rætt við mig um þessa hluti,“ segir Valgerður Sigurðardóttir, yfirlæknir á Líknardeild Landspítala, um niðurstöður könnunar sem sýna að þrír fjórðu hluta Íslendinga séu hlynntir líknardrápi. Hún segir að stuðningurinn sé svipaður og í löndunum í kringum okkur.

Greint var frá könnuninni í kvöldfréttum í gær. Í könnuninni, sem Maskína gerði fyrir Siðmennt, reyndist stuðningurinn mestur í yngsta aldurshópnum, þar sem hátt í 90 prósent eru hlynnt líknardrápi. Spurningin hljóðaði svo: „Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi?“ 75 prósent sögðust hlynnt því, en rúmlega sjö prósent andvíg.

Rætt var um niðurstöðurnar í Morgunútvarpinu á Rás tvö við Valgerði og Gunnar Bjarna Ragnarsson krabbameinslækni. Hann segir að munur sé á líknardauða og líknardrápi. Í líknardrápi sé læknir í líknandi skyni að drepa sjúkling. Hann gefi þá sjúklingi lyf sem veldur dauða hans. Líknardauði sé hinsvegar sjálfsvíg með aðstoð læknis. Bæði sé háð ströngum skilyrðum. Hér á landi hafi verið farið þá leið að veita líknandi meðferð, sem miði að því að hjálpa sjúklingnum að líða vel þangað til hann deyr. 

Valgerður segir þann stuðning sem fram komi í könnuninni um líknardráp sambærilegan og fram hafi komið í löndunum í kring. „Það er oft mikill ótti þarna á bakvið, ótti um hvernig fer, ótti við þjáninguna, kannski ekki svo mikið að deyja í sjálfu sér heldur þjáninguna. Það er alltaf þessi tilhneiging að finna einfalda lausn.“

Valgerður segir engar íslenskar rannsóknir vera til um afstöðu fólks til ákvarðana við lok lífs. „Áratuga rannsóknir alls staðar annarsstaðar hafa sýnt að því fjær sem maður er dauðanum í raunveruleikanum, því ákveðnari skoðanir hefur maður á líknardrápi en því nær sem maður er dauðanum, því dýrmætara verður lífið og stundirnar sem eftir eru.“

Gunnar Bjarni segir að skiptar skoðanir séu um málið meðal íslenskra lækna sem hafi starfað í Hollandi þar sem líknardráp er leyfilegt. „Við erum mjög skammt komin í þessari umræðu. Ég held að læknar á Íslandi hafi almennt ekki fastmótað sér afstöðu til þessa.“