Ingvar sá mynd af Ólafi og lagði saman 2 og 2

03.07.2017 - 17:55
Mynd með færslu
Ingvar og Ólafur leika saman í Ófærð 2 og Fantastic Beasts 2.  Mynd: RVK studios
Ólafur Darri Ólafsson og Ingvar E. Sigurðsson fara báðir með hlutverk í Fantastic Beasts 2 sem er einhvers konar forleikur að ævintýraheimi töfrastráksins Harry Potter eftir J.K Rowling. Talsverð eftirvænting er fyrir myndinni því þar sést meðal annars Jude Law í fyrsta skipti sem ungur Dumbledore sem aðdáendur Potter þekkja vel úr bæði bókunum og myndunum.

Tilkynnt var í dag hverjir yrðu í leikarahópi nýjustu myndarinnar. Auk Law bætist Johnny Depp við hópinn sem og Zoë Kravitz. Athygli hefur vakið að íslensku leikararnir tveir eru sérstaklega tilgreindir - Ólafur Darri leikur sirkusstjórann Skender en Ingvar hausaveiðara að nafni Grimmson. 

Ólafur Darri segir að þetta hafi komið til eins og flest hlutverk. „Ég fékk fyrirspurn og var beðin um að gera prufu. Ég gerði hana í apríl eða mars og svona fljótlega upp úr því fékk ég að vita að ég hefði fengið hlutverkið.“

Ólafur segir að hann og Ingvar hafi vitað af þessu í nokkurn tíma en ekki þegar þeir voru að gera sínar prufur í sitthvoru horninu. „Nei, ég fékk bara símhringingu frá Ingvari sem hafði séð mynd af mér upp á vegg og lagt saman tvo og tvo og fengið það út að ég væri með.“

Ólafur segir að tökur hefjist væntanlega í þessari viku og standi fram á vetur. Hann vill ekki segja hvort hlutverkið hans í myndinni sé stórt eða lítið. „Maður veit aldrei hvað gerist að lokum og ágætt að hafa sem fæst orð um það. Ég hef leikið stór hlutverk sem hafa orðið lítil og lítil hlutverk sem hafa orðið stór.“

Það verður að teljast einsdæmi að mynd af þessari stærðargráðu, sem hefur enginn augljós tengsl við Ísland, skuli skarta tveimur íslenskum leikurum. „Ég get ekkert sagt um mig en ég skil vel af hverju menn fá Ingvar  í vinnu því hann er búinn að vera minn uppáhaldsleikari lengi. En þetta er alveg rétt og er mjög gaman og við erum kannski að uppskera eftir að hafa lagt inn í bankann lengi.“  Ekki bara þeir tveir heldur fjölmargir íslenskir leikarar sem hafa gert það gott að undanförnu erlendis. Nægir þar að nefna Heru Hilmars eða Jóhannes Hauk Jóhannesson. 

Það sé líka skemmtilegt að kvikmyndagerðafólkið virtist ekkert hafa spáð í það hvort það væri ráðlegt að hafa tvo íslenska leikara heldur hafi eingöngu verið að hugsað hvort þeir væru réttu mennirnir í hlutverkin.

Leikarinn er mikill aðdáandi bókanna um Harry Potter en einhver gaukaði því að honum að þetta væru frábærar bækur þegar bók númer 3 kom út. „Mér finnst þetta alveg hrikalega skemmtilegur söguheimur.“

Ólafur vonar að hann og Ingvar nái að hittast á tökustað Fantastic Beasts þótt slíkt sé ekkert öruggt í jafn stórri framleiðslu og Fantastic Beasts 2 sé. „En við náum allavega að hittast á tökustað Ófærðar í haust.“

Og hafi það verið erfitt að ná einhverju upp úr Ólafi varðandi Hollywood-myndina er enn erfiðara að veiða eitthvað upp úr honum varðandi Ófærð. Ekki einu sinni hvar þættirnir eiga að gerast? „Heldurðu að ég fari að blaðra því?“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV