Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kveðst enn ósammála þeirri skoðun að hún hefði þurft að rökstyðja þá ákvörðun að skipa ekki alla þá umsækjendur sem hæfnisnefnd mælti með dómara við Landsrétt. Hún fór ekki eftir ítrekuðum ábendingum sérfræðinga í Stjórnarráðinu þessa efnis, enda hafi sérfræðingarnir verið starfsmenn hæfnisnefndarinnar.

Hæfnisnefnd mat í sumar að 15 umsækjendur væru hæfastir til að gegna stöðu dómara við Landsrétt. Dómsmálaráðherra vék frá hæfnismatinu varðandi fjóra umsækjendur, en Hæstiréttur dæmdi ráðherra í óhag í vetur, hún hefði brotið lög.  

Stundin birti í dag tölvubréf úr stjórnarráðinu þar sem fram kemur að Sigríður hafi hunsað ábendingar lögfræðinga í dómsmála-, forsætis- og fjármálaráðuneytum um málsmeðferð hennar við skipan dómaranna. Sérfræðingarnir hefðu bent á að hún þyrfti sjálf að rannsaka hæfni umsækjenda ef hún hygðist víkja frá áliti hæfnisnefndar. Sigríður segir að starfsmenn ráðuneytanna þriggja hafi verið starfsmenn hæfnisnefndarinnar sem vann upphaflega hæfnismatið.

„Ég fór alveg eftir ábendingum þeirra. Ég lagði auðvitað sjálfstætt mat á umsækjendur og fór yfir öll gögn, það er grundvallarregla í öllum stjórnsýslurétti. Nú hefur Hæstiréttur kveðið upp úr um það að ég hafi ekki rannsakað málið, ég hef lýst því að ég sé því ósammála, og ætla ekki að deila við dómarann," segir Sigríður.

Var kunnugt um sjónarmið sérfræðinganna

Sigríður sagði í Kastljósi í byrjun mánaðarins að Hæstaréttardómurinn hefði verið sér áfall, og hún hefði talið sig starfa samkvæmt lögum. Tölvubréfin sýna nú fram á að Sigríður vissi að sérfræðingar ráðuneytanna töldu að rökstyðja þyrfti breytinguna betur.

Sigríður bendir á að þetta hafi verið starfsmenn hæfnisnefndarinnar. 

Þetta eru líka starfsmenn dómsmálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins.

„Já," segir Sigríður. „Þetta eru líka starfsmenn hæfnisnefndarinnar á þessum tíma. Og það er alveg rétt að þetta sjónarmið er mér alveg vel kunnugt um. Enda var þetta rætt, mjög ítarlega."

Þú segir að þau hafi verið starfsmenn hæfnisnefndarinnar - ríkti ekki trúnaður á milli þín og þessara starfsmanna?

„Jú, algerlega. Þau komu bara og afhentu umsögnina, eða formaður nefndarinnar gerði það reyndar, en þau voru mér til halds og trausts í þessu máli allt til enda, ásamt fleiri sérfræðingum."

Engu að síður ferðu ekki eftir ábendingum þeirra um að rökstyðja til fulls allar hreyfingar á listanum.

„Nei, ég var því ósammála og er enn ósammála því að það þurfi að rökstyðja að leggja ekki til að einhver fái ekki embætti. Það er í sjálfu sér ekki ákvörðun um að einhver fái ekki embætti. Þannig að ég er enn þeirrar skoðunar."

En nú er fallinn þessi Hæstaréttardómur - hvað þarf til að þú skiptir um skoðun?

„Hæstaréttardómurinn kveður upp úr um að það hefði þurft að rannsaka málið frekar, hann kveður ekkert á um að hvaða leyti hefði þurft að rannsaka málið frekar, þannig að við erum kannski ennþá í nokkru myrkri hvað það varðar," segir Sigríður.

Öll ábyrgð hjá ráðherra

Í einu tölvubréfinu kemur fram að sérfræðingur hjá kjara- og mannauðssýslu fjármálaráðuneytisins, telur að öll ábyrgðin á ákvörðuninni hvíli hjá ráðherra. Því sé mikilvægt að ráðherra fari vel yfir álitið.

Ætlar þú að axla þína ábyrgð á ákvörðuninni?

„Ég hef auðvitað gert það, ég hef axlað pólitíska ábyrgð. Það hafa orðið kosningar hér, þetta er mál frá síðasta kjörtímabili sem þingið samþykkti með meirihluta atkvæða tillögu mína um skipan í Landsrétt," segir Sigríður.

Að lokum, svo við fáum þetta alveg fram, munt þú íhuga stöðu þína í ráðherraembætti vegna þessa máls?

„Nei, ég geri það ekki," segir Sigríður.