Nýju gossprungurnar eru tvær í sigdalnum tvo kílómetra frá Dyngjujökli. Gufa og gas stígur til suðausturs. Á myndbandi sem fylgir fréttinni má sjá nýju gossprungurnar. Fyrst er komið að gossprungunum sem opnuðust um liðna helgi en þaðan sést í átt að nýju sprungunum.

Mikið brennisteinstvíildi mælist í kringum gosstöðvarnar eins og í gær. Leiðni í Jökulsá á Fjöllum hefur aukist smávægilega. Töluverð virkni er í eldri gossprungunni og stíga gufustrókar úr henni upp í 15 þúsund fet. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Vísindamannaráðsfundar sem birt var á vef Veðurstofunnar í hádeginu. Þá kemur fram að sigketillinn í Dyngjujökli virðist hafa dýpkað. 

Þetta er rúma tvo kílómetra frá rótum Dyngjujökuls og gýs á tæplega kílómetra langri sprungu. Gossvæðið er lokað og fólk á svæðinu þarf að bíða átekta í Dreka. Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna, segir daglegt hættumat óbreytt enn sem komið er, þar sem gert var ráð fyrir því að gosið gæti færst nær, eða undir, jökulinn.