Í nálgunarbann fyrir að leggja barn í einelti

04.09.2017 - 14:19
Mynd með færslu
Breiðdalsvík.  Mynd: -  -  breiddalsvik,is
Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart þrettán ára dreng á Breiðdalsvík á Austfjörðum. Maðurinn hefur meðal annars kallað á eftir drengnum, hjólað í veg fyrir og lagt hann í einelti í rúm 2 ár, eða frá því drengurinn var á ellefta aldursári.

Lögreglan úrskurðaði í síðustu viku að maðurinn skyldi sæta nálgunarbanni en foreldrar drengsins hafa ítrekað kvartað til lögreglu vegna ógnandi tilburða og eineltis mannsins. Í það minnsta 10 tilvik eru til rannsóknar hjá lögreglu en lögreglan óskaði eftir því við manninn að hann hefði sig hægan á meðan á rannsókn málsins stæði.

Ekki leið sólarhringur frá því lögregla ræddi við manninn og þar til hann var aftur farinn að ónáða drenginn og því fór fjölskyldan fram á það að hann yrði úrskurðaður í nálgunarbann. Við því varð lögreglan og var málið tekið fyrir í héraðsdómi Austurlands á föstudag til staðfestingar. Dómarinn tók sér frest til dagsins í dag til að kveða upp sinn úrskurð. Úrskurðurinn hljóðar upp á nálgunarbann til 1. nóvember.

Drengurinn, sem er fæddur árið 2004, og maðurinn búa, eins og fyrr segir á Breiðdalsvík. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu má rekja upphaf málsins til þess að drengurinn skemmdi eitthvað sem var manninum kært. Frá þeim tíma hefur maðurinn ekki getað látið drenginn óáreittan og er nú svo komið að drengurinn þorir ekki í skólann af ótta við að rekast á manninn.

Mynd með færslu
Lára Ómarsdóttir