Þorsteinn Víglundsson, félags-og húsnæðismálaráðherra, hefur fulla trú á að víðtæk sátt skapist á þingi um frumvarp hans um jafnlaunavottun og að það nái fram að ganga. Hann hvetur Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, til að bíða eftir frumvarpinu og taka þá afstöðu en Óli Björn hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að styðja það.
Þetta kom fram í Silfrinu í hádeginu í dag. Fyrr í þessari viku gagnrýndi Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, Sigríði Andersen, dómsmálaráðherra, fyrir að draga kynbundin launamun í efa. Óli Björn lýsti því svo yfir að hann myndi ekki greiða atkvæði með frumvarpi um jafnlaunavottun.
Þorsteinn segir að kynbundin launamunur sé eitthvað sem hafi verið glímt við árum saman. Það hafi verið löggjöf sem geri slíkt óheimilt og það hafi komið fram umræða um að þetta sé einhver tölfræðiskekkja. „Allar rannsóknir sýna þennan launamun og að gliðni í sundur með kynjunum eftir því sem líður á starfsaldur þeirra. “ Hann vilji varpa ábyrgð yfir á stjórnendur í fyrirtækjum - það sé ólöglegt að mismuna á grundvelli kynferðis og það þurfi að útrýma þessum óútskýrða mun.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir jafnlaunavottun Viðreisnar ekki vera nýja af nálinni. Þetta sé engin heildarlausn - það þurfi jafnréttislög sem virki og jafnréttisstofu sem fái meiri fé. „Það er ekkert eitt tæki sem leysir allt og við getum ekki beðið mikið lengur.“ Hún gagnrýndi jafnframt framkomu dómsmálaráðherra sem hefði dregið gagnsemi fæðingarorlofs í efa og trúði ekki á kynjakvóta þrátt fyrir að vera í sínu ráðuneyti á grundvelli slíks kvóta.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að flokkurinn styddi öll góð mál en deilurnar innan stjórnarflokkanna vegna jafnlaunavottunarinnar væru áhugaverðar. „Þetta var stærsta málið sem Viðreisn fékk í gegn og það er því merkilegt að sjá að það sé strax komin órói í stjórnarliðana.“ Pólitískt geti þetta því orðið skemmtilegt bitbein. „Að jafna laun karla og kvenna er eitthvað sem við lítum jákvæðum augum en það verður líka skemmtilegt að fylgjast með ríkisstjórninni tærast upp.“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, sagðist ekki hafa rætt við Óla Björn um hans sýn á málið. Frumvarp um jafnlaunavottun væri í stjórnarsáttmálanum og muni fá þinglega meðferð. „Mér finnst bara ótrúlega þreytt að ég skuli vera komin í umræðuþátt að ræða íþyngjandi lagasetningu til að jafna launamun kynjanna - það skuli þurfa frumvarp. Ég hélt að þetta þyrfti ekki en þetta þarf. Ég hefði viljað að viðhorf samfélagsins væri komið lengra.“