Davíðssálmarnir úr Biblíunni hafa öðlast nýtt líf í textagerð Bono, söngvara írsku poppsveitarinnar U2. Þetta segir Gunnar Jóhannes Gunnarsson, doktor í guðfræði, en hann hélt fyrirlestur um málið í Vídalínskirkju í vikunni.

Gunnar fékk fyrir margt löngu áhuga á U2 og hreifst sérstaklega af textunum. „Af því ég er guðfræðingur fannst mér áhugavert hvað Bono vísar mikið í ýmiss konar trúararf og Biblíuna, og það sem er mest áberandi þar eru Davíðssálmarnir,“ segir Gunnar í samtali við Síðdegisútvarpið. Bono varð ungur hrifinn af sálmunum þegar hann fór með móður sinni í kirkju og heillaðist sérstaklega af þeim sem eru skilgreindir sem harmljóð. „Þar sem sálmaskáldið er að glíma við stóru spurningarnar sem gjarnan koma upp, þegar við mætum hremmingum í lífinu, ranglæti, ofbeldi og kúgun.“ Þá ákalli hinn trúaði Guð sinn um björgun og hjálp en það sé oft eins og hann svari ekki kallinu. „Í mörgum þessara sálma er einmitt spurt „Drottinn, hversu lengi þarf ég að bíða?“ Bono segist hafa hrifist af þessu, kannski vegna þessa ástands á hans heimaslóðum, þar sem ofbeldi og ranglæti ríkti,“ segir Gunnar.

Gunnar segir að þessi stef sé að finna víða tónlist U2, einna mest áberandi séu þau í laginu 40, „How long must we sing this song,“, en lagið sé einmitt nefnt eftir Davíðssálmi númer 40. Vísanir í sálmana sé til mynda að finna í laginu Sunday Bloody Sunday og þær séu áberandi á plötunum Rattle and Hum og Pop. En Bono hefur líka unnið með sálmana á tónleikum, þekktasta dæmið í seinni tíð eru tónleikar þeirra stuttu eftir hryðjuverkaárásina í París 2015. „Í lok lagsins Raised by Wolves sem fjallar um hryðjuverkaárás á Írlandi, þá fellur Bono á kné á sviðinu og fer með Davíðssálm 23, „Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, sproti þinn og stafur hugga mig.“ Bono hefur alltaf játað að vera trúaður en er líka óhræddur að viðurkenna eigin breyskleika og glímu við efann.“

Andri Freyr Viðarsson ræddi við Gunnar Jóhannes Gunnarsson í Síðdegisútvarpinu.