„Efniviðurinn er tragískur þó svo að umgjörðin sé á köflum gamansöm er kvikmyndin alltaf meðvituð um að sannleikurinn sem að hún er að reyna að miðla er fljótandi og það reynist nauðsynlegt að skálda í eyðurnar inn á milli,“ segir kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar um Vice sem fjallar um fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney.


Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Vice er ný kvikmynd úr smiðju leikstjórans Adam McKay sem er einna þekktastur fyrir gamanmyndina The Anchorman og The Big Short frá árinu 2015 sem fjallaði um aðdraganda fjármálahrunsins árið 2008, bandarísku fasteignabóluna og mennina sem sáu ósköpin fyrir og veðjuðu á hrunið. Í viðtali við Screenrant segist leikstjórinn hafa verið veikur heima hjá sér þegar hann, nánast af tilviljun, byrjaði að lesa bók um Dick Cheney. Cheney gengdi stöðu varaforseta í valdadatíð George Bush yngri auk þess sem hann var varnarmálaráðherra í stjórn Bush eldri á tímum Flóastríðsins, en myndin leggur þó einna mest upp úr stöðu hans sem varaforseta og hvernig hann mótaði stöðuna að eigin vild.

Hæglátur maður sem breytti heimssögunni

Að sögn Mckay þá heillaði hann sagan sem sögð er í The Big Short vegna þess að hún fjallar í raun um öflin sem móta heiminn og líf mannfólksins sem eru oftar en ekki hulin sjónum almennings. Þannig sló þeirri hugsun niður hjá honum við lestur bókarinnar um Dick Cheney að það væri kominn tími til þess að gera kvikmynd um þennan hægláta mann með eintóna talandann sem breytti gangi heimssögunnar en fáir vita mikið um, en Cheney er talinn hafa verið valdamesti varaforseti Bandaríkjanna frá upphafi.

Vice er því einstaklega áhugaverð kvikmynd sem tekst á við það verkefni að skilja og skoða sögu samtímans og beitir leikstjórinn margvíslegum stílbrögðum til þess að gera flóknum söguþræðinum skil, sem og þeim fjölmörgu, peðum, hrókum og kóngum sem koma við sögu. McKay vann lengi sem handritshöfundur fyrir hina vikulegu gamanþætti Saturday Night Life og bera myndir hans þess merki að vera undir áhrifum sketsa formsins og pólitískrar háðsádeilu. Með aðalhlutverk í Vice fara Christian Bale sem leikur Cheney, Amy Adams leikur eiginkonu hans Lynne Cheney, Steve Carell leikur Donald Rumsfeld og Sam Rockwell leikur George Bush yngri og fara hinir tveir síðastnefndu á kostum í hlutverkum sínum. Vice er jafnframt tilnefnd til átta Óskarsverðlauna og sem besta mynd, fyrir bestu leikstjórn og þau Christian Bale, Amy Adams og Sam Rockwell eru öll tilnefnd fyrir hlutverk sín í myndinni og eru vel að þessum tilnefningum komin.

Spilaði óheiðarlega til sigurs

Vice rekur ævi Dick Cheney allt frá því að hann er ungur maður í Wyoming árið 1963, en eftir brottvísun úr Yale háskólanum er Dick á botninum eftir að hafa verið gripinn við ölvunarakstur. Hann vinnur sem rafvirki á vegum hins opinbera, er drykkfelldur ónytjungur og á barmi þess að missa eiginkonu sína Lynne frá sér, taki hann sig ekki á. Hann lofar bót og betrun, skömmu síðar hefur hann fengið lærlingsstöðu í Hvíta Húsinu undir leiðsögn Donald Rumsfeld sem þá starfaði sem ráðgjafi í stjórn Nixons. Þar byrjar Cheney að læra á valdataflið í Washington og leiðin upp á við innan Repúblikanaflokksins er honum greið enda er Cheney frá upphafi til í að spila þann óheiðarlega leik sem er vænlegastur til sigurs.

Póstmórdernískur hrærigrautur

Í Vice beitir leikstjórinn McKay svipaðri frásagnartækni og í The Big Short; notast við írónískan sögumann, fjórði veggurinn er brotinn ítrekað, hröð klipping og póstmídernískur hrærigrautur af fréttaljósmyndum, tilvitnunum, satíru og skáldskap sem þó gefur alvarleika afleiðinga gjörða Cheney, líkt og Wall Street og bankanna í The Big Short, engin grið. Efniviðurinn er tragískur þó svo að umgjörðin sé á köflum gamansöm er kvikmyndin alltaf meðvituð um að sannleikurinn sem að hún er að reyna að miðla er fljótandi og það reynist nauðsynlegt að skálda í eyðurnar inn á milli, en áhorfendur eru yfirleitt látnir vita þegar svo er. Myndin flakkar einnig fram og til baka í tíma, myndin hefst á viðbrögðum Cheney og starfsfólks Hvíta hússins við árásunum 11. september, því næst er sögusviðið flutt til Wyoming 1963 og svo framvegis.

Hversdagsleiki illskunnar

Myndin sem dregin er upp af Cheney er skopleg að einhverju leyti og Christian Bale hreinlega líkamnast í Dick Cheney. Slík umbreyting er orðin að einu aðalsmerki Bale á undanförnum árum sem leikari. Hann gefur ekkert eftir sem Cheney, sem lætur ekkert stöðva sig til þess að sölsa undir sig völd og spila á og spila með öðrum leikendum í Washington. Mér varð hugsað til skrifa pólitíska heimspekingsins Hönnu Arendt um hversdagsleika illskunnar þegar ég horfði á myndina, en Cheney var einn helsti arkitektinn að innrásinni í Írak árið 2003 sem var réttlætt á fölskum forsendum eins og frægt er orðið en áður en Cheney tók að sér hlutverk varaforseta var hann í stjórnunarstöðu hjá Halliburton, einu stærsta olíufélagi heims.

Samhliða gjörðum sínum á pólitískum vettvangi er hann sýndur sem fjölskyldumaður með veikt hjarta sem styður samkynhneigða dóttur sína þrátt fyrir að vera íhaldssamur repúblikani. Á sama tíma er hann fær um slíka kerfisbundna illsku að manni verður ómótt af að horfa á og líka vegna þess að myndin er hreinlega frábær skemmtun. Þrátt fyrir að það kunni að virðast sem svo að Dick Cheney sé gerður að sympaískum karakter þá þjónar það fyrst og fremst þeim tilgangi að undirstrika kaldlyndið í pólitískum gjörðum hans og þeim hörmulegu afleiðingum sem þær höfðu og það hvernig hugrænt misræmi getur birst okkur. Fjölskyldumaðurinn Cheney minnti mig raunar á lokasenu Der Untergang, sem fjallar um síðustu daga Hitlers, þegar eiginkona Göbbels byrlar börnunum sínum eitur. Nasistar voru líka fjölskyldufólk.

Svona er þetta bara

Í viðtali við Screenrant segir McKay að tími gamanmynda á borð við Anchormann sé liðinn og við séum uppi á tímum sem séu post-genre, eða að hin skýrt afmarkaða kvikmyndagrein sé ekki lengur til. McKay ákvað því að leyfa tóninum í Vice að flökta en myndin er bæði harmræn og líka fyndin. Áhrifa William Shakespeare gætir líka bókstaflega í myndinni, Lynne og Dick bresta í vers þegar þau ræða um fyrsta fund Cheney og Bush yngri og Cheney minnir óneitanlega á Ríkharð þriðja, sem að er undirstrikað í síðustu senu myndarinnar þegar Cheney fer í sjónvarpsviðtal en ávarpar áhorfendur kvikmyndarinnar og horfir beint í myndavélina, þar sem hann segist finna fyrir ásökunum okkar, en það truflar hann ekki. Hann fékk sitt stríð. Svona er þetta bara.

Vice tekst að fjalla, líkt og The Big Short, um flókna pólitík á mannamáli og tekst að gera hana auðskiljanlega, fynda og dramatíska án þess að draga úr alvarleikanum sem liggur að baki. Þetta er mikilvægt pólitískt viðnám gagnvart valdhöfum sem vilja helst svæfa almenning úr leiðindum með því að gera gagnverk valdsins sem illskiljanlegast. Vice undirstrikar líka að mörgu leyti það hvernig Cheney og félagar hans í pólitík undirbjuggu jarðveginn fyrir Donald Trump og þær aðstæður sem við lifum við í dag í óstöðugu landslagi alþjóðlegra stjórnmála á tímum síðsannleikans.