„Hver sem er getur farið þarna inn og notað þessi gögn. Þau eru að vísu ekki persónugreinanleg en það getur nánast hver sem er byrjað að nýta þau í auglýsingaskyni,“ segir Margeir Steinar Ingólfsson, sérfræðingur hjá Hugsmiðjunni. Hann útskýrir stöðu Facebook í auglýsingaumhverfi og í samhengi við aðra samfélagsmiðla.
Margeir útskýrir að það sé rétt að þessi forrit safni gögnum um notendur. „Það má segja að í hvert skipti sem við notum þetta forrit, þá vistast gögn niður í gagnagrunn,“ segir hann. „Þessi forrit eru svo lúmsk, þau eru jafnvel að elta okkur inn á þær vefsíður sem við skoðum.“
Gögnin ekki persónugreinanleg
Hann segir að athyglisvert sé að minnast á að ekki aðeins Facebook geri þetta, þó að fyrirtækið sé málað sem „vondi kallinn“. „Jú, það er stórt, mikið notað og þeir selja þessi gögn grimmt til hins almenna notanda.“ Margeir bætir við að hver sem er geti farið inn á Facebook og notað gögnin, sem eru þó ekki persónugreinanleg.
En söfnun gagna af þessu tagi er mjög algeng og eru Tinder, Google og Spotify engar undantekningar.„Nánast öll forrit eru að gera þetta. Meira að segja vörur sem við setjum inn á heimilin okkar; hátalarakerfin, ryksuguvélmennið - það safnar gögnum um okkur. Og svo fer þetta örugglega inn í ísskápana og brauðristarnar líka,“ segir hann glettinn.
Kreditkortin marka skilin
„En málið er að við misstum ekki prívasíið þegar Facebook kom til sögunnar, við misstum það miklu fyrr. Það má segja að við höfum misst það þegar kreditkortin komu á markað. Það er í raun og veru fyrsta skrefið í því að taka af okkur prívasíið.“
Spurður um hvort notkun Facebook sé að minnka, svarar Margeir að skoða þurfi þá hluti frá nokkrum sjónarhornum. Í fyrsta lagi hvað umræðuna varðar: „Þetta varð svolítið hávært, sérstaklega í kjölfar allra þessara skandala á síðasta ári. Þar ber kannski hæst að nefna Cambridge Analytica-skandalinn og þá tók Facebook á fjármálamarkaði svolitla dýfu,“ segir hann.
Ný svæði fá tengingu
„Þegar að svona fyrirtæki tekur svona rosalega dýfu á markaði eftir að hafa bara verið á uppleið, og engri smá uppleið alla sína líftíð, þá fer fólk að spyrja sig: Er notkunin að minnka? Er kannski vöxturinn að ná hámarki og getur fyrirtækið ekki vaxið meir?“
Hann útskýrir að nánast allir sem hafi aðgang að netinu séu með Facebook-aðgang: „Þannig að vöxturinn hjá þeim felst kannski í því að það eru að koma ný svæði upp sem eru að fá nettengingu.“
Viðbrögð kalla á aukinn kostnað
„Svo í þriðja lagi hefur fjölmiðlaumfjöllunin haft neikvæð áhrif á gengi fyrirtækisins þannig að það tekur dýfu út frá því,“ segir Margeir. „En þegar nánar er skoðað er kannski ástæðan fyrir þessu svokallaða hruni að kostnaður fyrirtækisins hefur aukist miklu meira en vöxturinn. Þannig að vöxturinn hefur jú aukist - en ekki eins mikið og hratt og hann hefur gert hingað til.“
Aukinn kostnað segir Margeir mega útskýra með því að fyrirtækið sé að reyna að bregðast við gagnrýni. „Þetta eru fake news, hvernig auglýsingakerfið var misnotað til að koma Trump til valda. Það er gagnaleki, það er Cambridge Analytica og svo framvegis.“
„Facebook er svo annt um þessa gullgæs sína, sem eru þessi gögn, að þeir gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að girða fyrir þetta. Sumir segja að það sé of seint í rassinn gripið en þeir eru að leggja í svolítinn kostnað til að verjast þessu.“
Rætt var við Margeir Steinar Ingólfsson í Samfélaginu þann 14. janúar 2018. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.